„Í mínum vinahópi myndi aldrei klikka að setja 50cent á fóninn“ / HÓLMAR EYJÓLFS
Að þessu sinni er það Hólmar Örn Eyjólfsson sem svarar Tón-lystinni en auk þess að vera atvinnumaður í knattspyrnu er hann besti gítarleikarinn í íslenska landsliðinu í knattspyrnu – að mati Feykis. Þar sem Hólmar er búinn að glíma við erfið meiðsli undanfarna mánuði var ákveðið að senda honum spurningalista Tón-lystarinnar til að stytta honum stundirnar í endurhæfingunni í Búlgaríu þar sem hann er á mála hjá stórliði Levski Sofia.
Hólmar er Skagfirðingur í húð og hár, fæddur á Sauðárkróki í ágúst 1990. „Ég ólst upp hér og þar, nokkur ár á Sauðárkróki með mömmu minni, Önnu Pálu Gísladóttur, og pabba, Eyjólfi Sverrissyni.“ Hann segist ekki hafa afrekað mikið á tónlistarsviðinu. „Ætli hápunkturinn hafi ekki verið þegar ég spilaði með hljómsveitinni minni á árshátíð grunnskólans míns. En ég útiloka ekki að þessi hápunktur verði bættur í framtíðinni.“
Hvaða lag varstu að hlusta á? Jason Derulo – Don’t wanna go home, uppáhalds lag dóttur minnar sem stjórnar tónlistinni á heimilinu.
Hver er besti gítarleikarinn í landsliðinu? Eftir því sem ég best veit erum við fjórir, ég Raggi Sig, Rúrik og Jón Daði [sem spila á gítar]. Hef nú bara ekki séð nógu mikið af þeim á gítarnum til að segja hver sé bestur.
Hvað leikmaður er með hallærislegasta tónlistarsmekkinn? Ég held við séum allir nokkuð samstíga í þessu en Birkir Már hlustar á mjög þungan Metal sem ekki margir af okkur tengja við.
Uppáhalds tónlistartímabil? Ég tengdi mest og hlustaði mest á tónlist frá sirka 2004 til 2010. Það var mixtúra af rappi og rokki sem dómineraði tónlistina sem ég hlustaði á á þessum tíma.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Fer mjög eftir aðstæðum. Þegar ég er í ræktinni og fyrir leiki og svona finnst mér gott að hlusta á eitthvað með aðeins aggressífari undirtón til að koma mér í gírinn. Ef ég er heima vil ég oftast hlusta á eitthvað sem rennur auðveldlega í gegn og ekki of mikið áreiti.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Ýmislegt, helst í minni eru Sálin og Shania Twain.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég held það hafi verið Hybrid Theory með Linkin Park árið 2000.
Hvaða græjur varstu þá með? Það voru einhverjar alvöru Panasonic -græjur sem ég hélt mikið upp á.
Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Ætli það hafi ekki verið One Step Closer með Linkin Park
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ekkert sem kannski eyðileggur daginn en mér finnst sorglegt í hvaða átt sérstaklega útlenskt rapp er að fara í, óvandað og lélegir textar.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Í mínum vinahópi myndi aldrei klikka að setja 50cent á fóninn.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Þá myndi ég skella John Mayer eða Ed Sheeran á, frábærir tónlistarmenn!
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég væri mjög til í að sjá Metallica Live, og þá myndi ég taka frænda minn Styrmi Gíslason með mér sem kynnti mig hvað best fyrir rokkinu.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Það hlýtur að hafa verið 50Cent og félagar á þeim tíma, 2007.
Er eitthvað lag sem landslið Íslands fílar öðrum betur? Lag sem fær alltaf að hljóma í klefanum hjá okkur fyrir leiki er Hot Blood með Kaleo.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur kannski ekki dreymt um að vera hann, en ég ber mikla virðingu fyrir Ed Sheeran og því sem hann hefur áorkað með því að leggja mikið á sig.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Besta plata sem ég hef hlustað á og get látið renna í gegn endalaust, og geri enn í dag, er Starboy með The Weeknd.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Slow dancing in a burning room – John Mayer
One Dance – Drake
Rockin – The Weeknd
Passionfruit – Drake
Unforgettable – French Montana, Swae lee
Ric Flair Drip - Offset
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.