Hlustaði endalaust á Woman in Love þegar hún var 3 ára / SIGRÚN STELLA
Að þessu sinni er það Sigrún Stella Haraldsdóttir (1979) sem svarar Tón-lystinni en lag hennar, Sideways, hefur fengið talsverða spilun bæði hér á Fróni og í Kanada upp á síðkasta – enda hörkufínt lag. „Ég ólst upp í Winnipeg í Kanada og á Akureyri,“ tjáir Sigrún Stella Feyki. „Faðir minn var hann Haraldur Bessason [Halli Bessa] heitinn frá Kýrholti í Skagafirði og móðir mín er Margrét Björgvinsdóttir.“ Sigrún Stella býr nú í Toronto í Kanada.
Auk þess að syngja spilar hún á píanó og gítar. Í viðtali við Morgunblaðið nú nýlega segist hún hafa byrjað að spila á píanó þegar hún var lítil og hafi foreldrunum fundist það frekar undarleg hegðun hjá 3 ára barni að liggja með heyrnartólin heilu dagana að hlusta á tónlist. Nú vinnur Sigrún Stella að sinni músík alla daga en hún og eiginmaður hennar, Michael Andrew Dilauro, eiga og reka tónlistarstúdíóið South River Sound þar sem hún vinnur við að semja lög alla daga. „Í dag sé ég ekki fyrir mér að vinna við neitt annað. Ég get setið allan daginn með míkrófóninn við tölvuna og dagurinn líður eins og einn klukkutími.“
En hér eru svör Sigrúnar Stellu við hinum klassíska spurningalista Tó n-lystarinnar:
Hvaða lag varstu að hlusta á? Gregory Alan Isakov, lagið Amsterdam.
Uppáhalds tónlistartímabil? Bara öll!
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég hef mikið verið að hlusta á Júníus Meyvant þessa dagana, hann er frábær og hans band!
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var mikið hlustað á Simon og Garfunkel. Mamma og pabbi hlustuðu mikið á klassíska tónlist og pabbi var voða hrifinn af jazzi, Oskar Petersen var í miklu uppáhaldi hjá honum.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Queen!
Hvaða græjur varstu þá með? Kasettutæki.
Hvað var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Barbara Streisand, alveg endalaust. Ég hlustadi á lagið non stop þegar ég var 3ja ára. Lagið Woman in Love.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Held að ekkert lag geti eyðilagt daginn fyrir mér.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Eagles – Take it Easy.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Tom Waits – Ol 55.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Vá hvað ég hefði viljað upplifað að sjá Queen Live – en það er víst ekki hægt .
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? Guns N Roses og Queen!
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Wille Nelson, af því hann er svo cool! Annars eru það svo margir tónlistarmenn sem hafa haft áhrif en ég get nefnt t.d. Leonard Cohen og Joni Mitchell.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Vá, erfitt ad svara þessu, en Platan Closing Time med Tom Waits er golden.
Fimm vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Amsterdam / Gregory Alan Isakov
Ol 55 / Tom Waits
Fishermans´s Blues / The Waterboys
Walking on a String / Phoebe Bridgers
Junius Meyvant / Color Decay
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.