Féll fimm ára fyrir lagi með Jimi Hendrix / SÓLMUNDUR FRIÐRIKS
Sólmund Friðriksson ættu fleiri en einn og tveir að kannast við sem skelltu sér á ball á gullaldarárum Hljómsveitar Geirmundar í kringum 1990 en þar plokkaði hann bassa af mikill list. Sóli, sem er árgangur 1967, býr nú í Keflavík en hann ólst upp á Stöðvarfirði, sonur hjónanna Solveigar Sigurjónsdóttur og Friðriks Sólmundssonar.
Auk bassa spilar Sóli á gítar og þenur raddbönd. Spurður um helstu tónlistarafrek segist hann ekki hafa unnið nein stórafrek hingað til „... en það stendur til bóta á næstu árum þar sem ég er byrjaður að vinna eigið efni til útgáfu. Tónlistarbröltið aðallega verið í góðra manna hópi í hljómsveitamennsku og kórum. Afrekin hafa því verið ýmsir viðburðir og uppfærslur á tónlistarsviðinu í gegnum árin, þar sem ég hef borið þeirrar gæfu að kynnast mörgu góðu listafólki.“
Uppáhalds tónlistartímabil? - Mér finnst öll tímabil hafa sinn sjarma hvert sem litið er í tónlistarsögunni. Ég laðast einkennilega mikið að tónlist úr seinna stríði en af því sem er nær í tíma þá myndi ég segja hippatímabilið og prog-rokkið í kjölfarið á því.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? - Ýmist nostalgía eða nýtt, aðallega eitt og eitt gott og vel samið lag sem heltekur hug og hjarta. Nú um jólin var það t.d. lagið Both Sides Now með Joni Mitchell. Heyrði það í útvarpsþætti hjá Andreu og var búinn að vera með það á vörunum í nokkra daga, lesa textann og prófa að spila og syngja, þegar ég mundi allt í einu að lagið er í einni af mínum uppáhalds jólamyndum, Love Actually, sem ég hvíldi þessi jólin.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? - Það var mikill hrærigrautur. Ég er næst yngstur fimm systkina og því var það mjög breitt svið tónlistar sem hljómaði í Sunnuhvoli, æskuheimili mínu á Stöðvarfirði. Það var alltaf plötuspilari í stofunni og reglulega keyptar plötur af ýmsum toga, harmonikku-, kóra-, þjóðlagatónlist, franskar söngdívur, barnaplötur og margt fleira. Ég og yngsta systir mín hlustuðum í stofunni en eldri systkinin höfðu svo sína plötuspilara inni á sínum herbergjum. Mamma rifjaði þetta eitt sinn upp á skemmtilegan hátt og lýsti dæmigerðum eftirmiðdegi að vori á heimilinu: Af efri hæðinni glumdi Megas frá herbergi elsta sonarins, Eagles niðri á gangi frá miðdótturinni, útvarpið á fullu inni í eldhúsi en við yngstu systkinin sátum á stofugólfinu að hlusta á plötuna Jólin hennar ömmu.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? - LP platan var Gæti eins verið með Þursaflokknum. Keypti hana á útsölu í Zetunni á Stöðvarfirði. Fyrsti diskurinn líklega Muddy Water Blues með Paul Rodgers, kasettan Bat out of Hell með Meat Loaf sem ég keypti á spottprís í sjoppunni á Fagurhólsmýri, þar sem verði var aldrei breytt á verðbólguárunum. Hvað niðurhal varðar þá er sennilega svipað á komið með mér og þorra Íslendinga, að ég man ekki til þess að hafa fest kaup á slíku. Jú, ég keypti eitthvað á tímabili af tónlist.is, enda stefnan að „fá aldrei lánað” af netinu íslenska tónlist.
Hvaða græjur varstu með fyrst? - Lítinn mono plastplötuspilara sem bróðir minn var hættur að nota en spilaði líka mikið á Crown samstæðunni í stofunni. Fyrsti geislaspilarinn var NAD sem ég á enn og nota töluvert.
Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? - Fyrsta lagið sem kolfelldi mig var The Wind Cries Mary með Jimi Hendrix, minnir að ég hafi verið fimm ára.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? - Ekkert sem betur fer . Tónlistarbrölt og -nám í gegnum tíðina hefur fært mér þá skoðun að það sé ekki til leiðinlegt lag í sjálfu sér. Hef tamið mér svipaða nálgun að tónlist og fólki, ef ég mæti einhverju sem vekur hjá mér neikvæðar tilfinningar leitast ég við að finna eitthvað jákvætt við það.
Uppáhalds Júróvisjónlagið? - Það erlenda er All kinds of everything sem hin írska Dana söng svo eftirminnilega þegar ég er rétt að byrja að muna eftir mér. Það íslenska er lagið hans Óskars Páls Is it true.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? - Það kemur náttúrulega bara eitt lag til greina til að koma minni kynslóð í stuð en það er “Paradise by the dashboard light”. Svo léti ég fylgja á eftir nokkra góða “eitís” rokkslagara.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? - Eitthvað notalegt eins og t.d. Norah Jones eða hina norsku Kings of Convinience.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? - Til USA á grand útitónleika með Eagles. Myndi að sjálfsögðu taka eiginkonuna með mér.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? - The Queen is dead með Smiths.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? - Mig hefur aðallega dreymt að verða tónlistarmaður sjálfur og vonast til að ná að þroska mig enn frekar á því sviði næstu árin. Hins vegar er Sting í mikum metum hjá mér og hefur haft mikil og margskonar áhrif á mig, liggur eiginlega beinast við þar sem hann hittir í mark hjá mér á ýmsum sviðum, er kennari, bassaleikari, lagasmiður og húmanisti.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? - Heaven & Hell með Joe Jackson. Snilldarverk eftir mikinn snilling, einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? - Það sem ég hef verið að hlusta á í jólafríinu:
Both sides, now – Joni Mitchell
Oh, Sister – Bob Dylan
Wishing Well – Free
Hold on – Tom Waits
Driving home for Christmas – Chris Rea
Fairytale of New York – The Pogues
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.