Einnar nætur gaman kemur öllum í stuð / BEGGÓ PÁLMA
Tónlistarmaðurinn Beggó Pálma hefur nú sett lag sitt Einnar nætur gaman á allar helstu streymisveitur en það lag naut gífurlegra vinsælda á Króknum á sínum tíma, og segist Breggó vera að reyna að blása lífi í lagið. „Ég flutti suður til að elta drauma mína í tónlist en hlutirnir gengu ekki alveg upp eins og vonað var eftir og áform mín söltuð. En núna er ég að gera eina tilraun enn til að koma mér á framfæri,“ segir Beggó.
„Mér finnst eins og Einnar nætur gaman hafi aldrei fengið þá athygli sem það á skilið. Ég hlóð því upp á allar helstu streymisveitur og er ég núna að berjast við að blása lífi í þetta Skagfirska One hit wonder en lagið fór aldrei í spilun í úrvarpi, hvað ég best veit. En núna hef ég sent á allar helstu útvarpsstöðvar og er í raun í „duga eða drepast“ herferð til að koma mér á framfæri. Platan mín er tilbúinn og hún kemur út núna í ár en ég er með áform um að taka upp fleiri lög en ég á heilan banka af lögum sem bara bíða eftir stúdíótíma.“
Beggó segist aðspurður sjá framtíðina fyrir sér eins og hver annar sem er að reyna að koma sér á framfæri í tónlist. Splunkunýtt lag er nú komið út og segist Beggó vera með ágætar væntingar til þess og svo í maí ætlar hann að gefa út lag sem hann telur að gæti orðið heitur sumarsmellur. „Ég er svo með áform um að taka upp heila 14 laga plötu sem ég vænti að komi út annað hvort 2021 eða 22. Um leið og rykið hefur fallið eftir sumarið mun ég eflaust setja fulla orku í upptöku á þeirri plötu. Ég veit í raun ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en veit hún verður full af tónlist.“
Beggó svarar hér spurningum í Tón-lystinni.
Nafn og heimili: Ég heiti Bergþór Smári Pálmason Sighvats en betur þekktur undir nafninu Beggó Pálma. Ég bý akkúrat núna í Vesturbæ Reykjavíkur.
Árgangur: Ég er ´89 módel.
Hvar ólstu upp og hverra manna ertu? Ég tók mín fyrstu skref í 101 Reykjavík við Tjarnagötuna en ólst svo upp í Breiðholtinu í Reykjavík. Ég á ættir mínar að rekja til bæði Skagafjarðar og Húnavatnssýslu en afi minn, Ívar Kristjánsson var undan Kidda Júll og Margréti Guðrúnar en þau voru frá Blönduóshreppi og amma mín, Rósa Guðrún Sighvats, er frá Sauðárkróki dóttir Hvata á Stöðinni og Herdísar Margrétar frá Reykjavöllum. Ég eyddi sumrum mínum fyrir norðan og flutti svo norður fljótlega eftir hrunið góða 2008 og bjó á Króknum til 2015 þegar ég elti ástina suður og þar hef ég setið síðan.
Hljóðfæri: Ég spila aðallega á gítar en kann einnig aðeins á píanó.
Helstu tónlistarafrek: Einnar nætur gaman án efa. Ég hef samið mörg lög og sungið opinberlega og fólk tekið vel undir en ekkert keppir við Einnar nætur gaman eins og er.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Ég er alæta í tónlist að mestu. Ég hlusta einna mest á rokk og metal en kann vel að meta kántrí, djass, blús og klassíska tónlist.
Uppáhalds tónlistartímabil? Ég held ekki upp á neitt ákveðið tónlistartímabil fram yfir annað. Þetta byggist einna helst á andrúmslofti og tilfinningum hvort ég sé til í 80‘s tóna eða 70‘s fönk. Ég er mjög veikur fyrir 60‘/70‘ rokki á sumrin en kannski meira fyrir djassinn, swing og góða crooners á haustin. En ekkert jafnast á við gott íslenskt 90‘s/00‘ dægurlaga rokk á vorin.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Einfaldlega góð tónlist, ég er mikið að á hlusta á kántrí þessa dagana eða bara það vinsælasta í útvarpinu hverju sinni. En ég er aldrei langt frá rokkinu og málminum hverju sinni.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Öll tónlist var í raun spiluð á mínu heimili. Enginn ákveðinn stefna fram yfir aðra nema kannski að það var ekki mikið um FM957, ef foreldra mínir fengu að ráða, annars var fáu hafnað.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Held að mín fyrsta plata eða geisla diskur sem ég keypti hafi verið Black Album eða Master of Puppets með Metallica,
Hvaða græjur varstu þá með? Bara þennan stóra klunnalega vasaspilara og heyrnartól. Hins vegar fékk ég flotta samstæðu í fermingargjöf með pláss fyrir þrjá diska einu.
Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Í góðu skapi með Sniglabandinu. Ég man mjög vel eftir því, þegar ég var bara lítill polli, þá elskaði ég það lag. Svo var Ástin og lífið með Magnús & Jóhann.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég veit um lög sem ég kann illa við og lög og tónlistarmenn sem ég skil ekki að séu í útvarpi en mér dettur ekki eitt lag í hug sem gæti eyðilagt fyrir mér daginn eða farið óstjórnlega í taugarnar á mér.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég spila auðvitað Einnar nætur gaman til að koma öllum í stuð en sem back up spila ég Old Time Rock & Roll með Bob Seger eða Any Way You Want It með Journey.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Í kaffivélinni.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég bara veit ekki og get því ekki svarað þessari spurningu.
Hvaða músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Þegar ég fékk bílprófið spilaði ég einna helst metal- og rokktónlist, en var hins vegar að hlusta mjög mikið á 80‘s glam rokk, þannig það mátti heyra Kiss, Bon Jovi, Mötley Crüe, Poison, Aerosmith og White Snake
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Johnny Cash hafði eflaust allra mestu áhrif á mig á yngri árum en svo kom Bob Dylan tímabil. Núna þessa dagana er ég að hallast að Ed Sheeran eða Michael Buble eða kannski Joe Crocker.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Maður hlustar eiginlega ekkert lengur á plötur, en ef ég ætti að velja eina plötu sem hafði hvað mest áhrif á mig þá væri það Nevermind með Nirvana eða Evil Empire með Rage Agains The Machine.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Bestu lög allra tíma, að mínu mati, eru eftir farandi:
- Babe I‘m goanna leave you – Led Zeppelin
- I want you (She‘s so Heavy) – Beatles
- Sorry Seams to Be the Hardest Word – Ray Charles Feat Elton John
- Unforgiven – Joe Cocker
- My Way – Frank Sinatra
- Absolution – Pretty Reckless
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.