„Ég hef ekkert vit á stuðtónlist“ / SVAVAR KNÚTUR
Það er söngvaskáldið Svavar Knútur sem svarar Tón-lystinni í þetta skiptið, búsettur í Reykjavík og fæddur árið 1976. „Ég ólst upp í Sléttuhlíðinni, á bænum Skálá, þar sem foreldrar mínir voru bændur. Mamma starfaði líka sem kennari og pabbi sem sjómaður frá Siglufirði,“ segir hann og bætir við að helstu hljóðfærin sem hann spilar á séu gítar, ukulele og píanó, „... en ég gríp í önnur hljóðfæri ef ég er beðinn fallega.“
Spurður um helstu tónlistarafrek sín svarar hann: „Ég hef gefið út fjórar sólóplötur, eina dúettaplötu með Kristjönu Stefáns, tvær með hljómsveitinni Hraun. Ég hef starfað við leikhústónlist og sungið með sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá hef ég farið í tónleikaferðalög til Evrópu, Ameríku og Ástralíu og hef verið reglulega á tónleikaferðalögum síðan 2007. Svo átti ég lag sem komst í fimm laga úrslit í tónlistarkeppni á vegum BBC World Service 2007. Einnig hlaut lagið mitt Þokan, færeysku tónlistarverðlaunin árið 2014.“
Hvaða lag varstu að hlusta á? Lagið Laugh track með hljómsveitinni Chavez.
Uppáhalds tónlistartímabil? Þau eru nú nokkur, en akkúrat núna held ég mikið upp á gullöld söngvaskálda á áttunda áratugnum, þegar menn fóru að semja af dálítilli dýpt og þyngd.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Framsækin indie tónlist gerir mig alltaf áhugasaman, en líka flott íslenskt rapp, eins og Úlfur Úlfur.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Pabbi og mamma höfðu afskaplega ólíkan tónlistarsmekk. Mamma hlustaði mikið á Bítlana og Leonard Cohen, en pabbi var meira í prog rokki eins og Yes og Emerson, Lake og Palmer. Svo mættust þau svolítið á miðri leið og hlustuðu saman á Cat Stevens og Cohen. En það var nú samt á endanum mestmegnis bara það sem var í útvarpinu sem hafði vinninginn yfirleitt.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég held það hafi verið plata með Fleetwood Mac. Bara fyrir forvitnina. Ég var mjög seinn í því að verða tónlistarneytandi.
Hvaða græjur varstu þá með? Ég hef aldrei átt græjur á ævinni, svo ég notaði fermingargræjurnar hans Nóna bróður og græjurnar hans pabba til að hlusta. Annars á ég yfirleitt bara einhverja gluggasyllugeislaspilara eða bara heyrnartól.
Hver var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Tjah. Ég held að fyrsta lagið sem ég fílaði í botn hafi verið lagið Halfway Down the Stairs, af prúðuleikaraplötunni. Litli frændi Kermits, hann Robin, syngur það alveg ótrúlega fallega.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég er ótrúlega fljótur að skipta um stöð ef eitthvað leiðinlegt kemur á. En tilgerð, upphafning, rembingur og væmni (óeinlægni) fara alveg rosalega í taugarnar á mér.
Uppáhalds Júróvisjónlagið? Þau eru nú ótrúlega mörg, en kannski maður nefni bara Lapponia, gamalt finnskt Júróvisjónlag, sem er alger snilld.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Uss! Ég held aldrei partý og ég hef ekkert vit á stuðtónlist. Ég myndi örugglega enda á að setja á lögin úr Klaufabárðunum eða eitthvað. En akkúrat núna eru Úlfur Úlfur í uppáhaldi hjá mér í flokknum sem myndi kallast stuðtónlist, svo ég myndi örugglega skella þeim á fóninn. Svo myndi ég mögulega smella einhverju hressu með Siu í strauminn líka.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Sunday Morning Coming Down með Kris Kristofferson. Það er alveg yndislegt lag og hlýjar mér alltaf í hjartanu. Eða Johnsburg Illinois með Tom Waits.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ætli ég skryppi ekki til Ástralíu að sjá Nick Cave í Melbourne einhvers staðar. Tæki konuna með og svo myndum við gera smá ferðalag úr þessu, fyrst við værum komin svona langt að heiman.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? Ætli það hafi ekki verið Dummy með Portishead. Jafnvel Life með Cardigans. Snilldar plötur.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Tom Waits, Leonard Cohen, Kris Kristofferson, Will Oldham og svoleiðis týpur heilla mig rosalega.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Þessari spurningu er ómögulegt að svara, en það má segja að mesta óvissuplata sem ég veit, sem ég hugsa að hefði breytt mestu um tónlistarsöguna hefði hún komið út á sínum tíma, sé platan Smile með Brian Wilson, sem átti að verða platan á eftir Pet Sounds með Beach Boys. Hún er alveg rosaleg og ég held að ef hún hefði komið út á sínum tíma, væri líklega jafn mikið talað um hana sem eitt af stórvirkjum 20. aldarinnar og talað er um Sergeant Peppers með Bítlunum. En útgáfa hennar varð ekki að veruleika fyrr en fjörutíu árum seinna, þegar hljómsveitin hans Brian Wilsons ákvað að klára hana með honum.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
1: Unreal is here / Chavez
2: Elastic heart / Sia
3: Spit on a stranger / Pavement
4: Time Immemorial / Marketa Irglova
5: Random Haiku Generator / Sóley
6: Barn / Úlfur Úlfur
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.