Ásgeir Trausti er fínn með morgunkaffinu / ÓLAFUR RÚNARS
Að þessu sinni tekur Tón-lystin hús á Ólafi Rúnarssyni sem er árgerð 1970. Hann er innfæddur Garðbæingur en býr nú á Hvammstanga og kennir þar við Tónlistarskóla Húnaþings vestra en að auki kennir hann líka við Auðarskóla í Dölum. Ólafur segir að pabbi hans eigi rætur að rekja á Refsstaði í Laxárdal sem og Björnólfsstaði í Langadal og Litlu-Ásgeirsá í Þorkelshólshreppi sem nú er í Húnaþingi vestra.
Helsta hljóðfæri Ólafs eru raddböndin en hann er tenórsöngvari og segist bjarga sér á selló, píanó, gítar og ukulele og annað það helsta sem þarf að kenna á í litlum tónlistarskóla úti á landi en hann á að baki tvær mastersgráður frá konunglegu tónlistarakademíunni í Glasgow. Spurður út í helstu afrek sín á tónlistarsviðinu segir hann: „Stóru hlutverkin mín á óperusviðinu erlendis voru til dæmis Don Jose í Carmen, Idomeneo í samnefndri óperu Mozarts, Jenik í Seldu brúðinni, Ferrando í Cosi fan tutte og svo einsöngstónleikar mínir í Tíbrá tónleikaröðinni í Salnum í Kópavogi.“
Þegar Tón-lystin bankar upp á í lok aprílmánaðar þá er Ólafur að hlusta á Eurovision lagið hennar Lay Low, flutt af nemendum hans.
Uppáhalds tónlistartímabil? Erfið spurning, en ætli það sé ekki tónlist sem hefur unnið sér það inn að kallast sígild, frá Monteverdi til Ný danskrar og allt þar á milli.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Allt þetta unga frábæra tónlistarfólk okkar Íslendinga sem semur og flytur tónlist sem hefur eitthvað að segja, tónlist sem kemur frá hjartanu.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Mikið af kórtónlist, klassík og djassi.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir þér? Prúðuleikaraplatan.
Hvaða græjur varstu þá með? Man ekki hvað þær hétu en þær voru með útvarpi, plötuspilara, tvöföldu kasettutæki og hátölurum sem hægt var að taka af.
Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Jenny Darling með Pelican.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Lögin sem maður losnar ekki við úr hausnum, síðast var það Segðu mér með Frikka Dór, ágætis lag en óþolandi að hafa það á heilanum.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð?Stuðsalsapönksveitin Júpíters.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ásgeir Trausti er fínn með morgunkaffinu.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Myndi helst vilja fara aftur í tímann og sjá Queen með Freddie Mercury, en draumurinn er að fara með konunni og sjá Adam Lambert syngja með þeim.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Duran Duran, Queen, U2, R.E.M. Sálin hans Jóns míns, Bubbi, Possibillís og það sem var á Rás 2
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Það er erfitt að segja, þeir eru ansi margir sem hafa haft áhrif á mig í gegnum árin.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? A Night at the Opera, fékk hana lánaða hjá Sigga frænda fyrir 40 árum og er ekki enn búinn að skila henni.
Ef þú ættir að velja eitt lag sem yrði spilað við útförina þína, hvaða lag væri það? Nótt, Draumalandið og Í fjarlægð koma fyrst upp í hugann. En það gæti þess vegna verið When I think of angels eða Smávinir fagrir. Svo er ekkert víst að það sé búið að semja það.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Ekkert að marka hann, hann er fullur af lögum sem ég er að vinna með nemendunum mínum. En þarna eru bræðurnir Friðrik og Jón, Bríet og Billie og svo söngvakeppnislög.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.