„AC/DC hefur hingað til ekki klikkað til að koma öllum í gírinn“ / ÁSBJÖRN WAAGE
Nú á dögunum fór fram árleg Söngkeppni NFNV og þar stóð uppi sem sigurvegari Ásbjörn Edgar Waage. Hann er fæddur árið 1999 og alinn upp á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann stundur nú nám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Það þótti við hæft að fá kappann til að svara Tón-lystinni í Feyki.
Ásbjörn segir að þrátt fyrir að hafa glamrað á hin og þessi hljóðfæri þá haldi hann sig langmest við sönginn og helstu afrekin á tónlistarsviðinu séu að hafa orðið annar í Söngkeppni NFNV árið 2017 og síðan í fyrsta sæti nú árið 2019 þar sem hann söng lagið Last in Line með Tenacious D.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Lagið Burn með Deep Purple.
Uppáhalds tónlistartímabil? Erfitt að gera uppá milli þeirra, en svona yfir heildina séð er það tvímælalaust áttundi áratugur síðustu aldar(1970-1979).
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Verð að viðurkenna að megnið af þeirri tónlist sem er gerð í dag höfðar alls ekki til mín en þó eru listamenn og bönd eins og Kendrick Lamar og Ghost sem mér finnst skemmtilegt að fylgjast með.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var og er mjög blandað, allt frá klassísku rokki og blús til íslenskra dægurlaga.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ef minnið svíkur mig ekki þá var það Master of Puppets með Metallica.
Hvaða græjur varstu þá með? Engar svaka græjur svosem, bara lítið Panasonic útvarp með geislaspilara.
Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Það var Smells Like Teen Spirit með Nirvana.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Úff, það er slatti af þeim til, en nóg er að setja á eitthvað með Áttuni.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? AC/DC hefur hingað til ekki klikkað til að koma öllum í gírinn.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Mescalin með EGÓ er sterkur leikur á slíkri stund.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ef ég ætti valið á hvað sem er myndi ég án efa skella mér til Englands með vini mínum, Agnari, að sjá Black Sabbath aftur.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Ronnie James Dio er án efa sá tónlistarmaður sem haft hefur langmest áhrif á mig í gegnum tíðina, hvort sem það varðar textasmíði eða söng, þá er hann án efa að mínu mati einn besti tónlistarmaður sem uppi hefur verið.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Margar frábærar plötur eru í miklu uppáhaldi hjá mér en þó sérstaklega eru tvær plötur sem sitja saman í fyrsta sæti sem ég fæ mig ekki til að gera uppá milli, og eru það Holy Diver með Dio og Sabbath Bloody Sabbath með Black Sabbath.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Follow the Tears / Heaven and Hell
Welcome to the Garden State / Overkill
Message in a Bottle / The Police
To Defy the Laws of Tradition / Primus
The Phantom Opera Ghost / Iced Earth
Empire of the Clouds / Iron Maiden.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.