Zoran Vrkic yfirgefur Tindastól - Uppfært

Zoran Vrkic með boltann í leik gegn Keflvíkingum í vor. MYND: DAVÍÐ MÁR
Zoran Vrkic með boltann í leik gegn Keflvíkingum í vor. MYND: DAVÍÐ MÁR

Króatinn Zoran Vrkic og Körfuknattleiksdeild Tindastóls hafa komist að samkomulagi um að hann hafi lokið leik fyrir liðið. Þetta kemur fram á Facebook-síðu deildarinnar en þar er honum þakkað fyrir samstarfið og óskað alls hins besta í framtíðinni.

Í stuttu og hnitmiðuðu svari formanns deildarinnar við spurningu Feykis hver ástæðan væri fyrir þessum breytingum og hvað sé verið að gera í staðinn, segir Dagur Þór að um áherslubreytingar væri að ræða og verið sé að skoða málin.

Zoran hefur kannski ekki verið afgerandi leikmaður Stólanna í vetur né bætt leik liðsins þegar á hefur þurft að halda en vissulega aukið breiddina. Tölfræðin segir að að meðaltali hafi hann skorað 7.7 stig, tekið 4.1 frákast og gefið 1.5 stoðsendingar í leik.

Ljóst er að brottför Zoran hefur ekki eingöngu áhrif á meistaraflokksstarfið því hann hefur verið einkar vinsæll í störfum sínum fyrir unglingadeildina.

„Svona mál eru aldrei skemmtileg og Zoran mikill vinur okkar og því allt gert í mesta bróðerni,“ segir Helgi Freyr Margeirsson, verkefnastjóri unglingadeildar og aðstoðarþjálfari Pavels Ermolinski í meistaraflokki. „Hann hefur unnið vel fyrir félagið hvort heldur sem er í starfi sínu sem leikmaður mfl. eða sem þjálfari í yngriflokkum þar sem hann hefur náð vel til krakkanna enda frábær persóna. Hann mætti á æfingar í dag og kvaddi krakkana. Félagið óskar honum alls hins besta í næstu verkefnum,“ bætir Helgi Freyr við.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir