Afurðahæstu búin 2022 í Skagafirði voru Ytri-Hofdalir með mestu verðefni og Daufá með mestu meðalnyt
Á aðalfundi Félags kúabænda í Skagafirði í síðustu viku voru í fyrsta skipti afhent verðlaun fyrir afurðahæsta búið 2022 í Skagafirði fyrir mestu verðefni og fóru þau til Ytri-Hofdala sem voru með samtals 634 kg verðefni (7.596 kg mjólk *( 4,86% fita + 3,49% prótein)). Afurðahæsta búið 2022 í Skagafirði fyrir mestu meðalnyt er hins vegar Daufá, alls 8.264 kg/árskú af mjólk. Daufá var einnig með hæstu meðalnytina á Norðurlandi vestra og í 7. sæti yfir allt landið.
Þetta kemur fram á Facebooksíðu Guðrúnar Kristínar Eiríksdóttur, formanns félagsins. Þar segir einnig að stjórn félagsins hafi tekið þá ákvörðun að verðlauna aðeins búið sem var með mestu verðefnin en yfirsást að tilkynna og upplýsa fyrir hvað verðlaunin voru veitt. Sambærileg viðurkenning hafi verið, þar til fyrir nokkrum árum, afhent á ársfundi mjólkursamlags KS og því tók stjórnin þessa ákvörðun.
„Afurðahæstu kýrnar 2022 í Skagafirði fyrir verðefni voru einnig verðlaunaðar, í fyrsta sæti var Valkyrja 912 frá Efra-Ási með 958 kg. verðefni (13.070 kg mjólk, *(3,73% fita + 3,60% prótein)), önnur var Harpa frá Réttarholti með 941 kg. verðefni (13.035 kg mjólk *(4,13% fita +3,09% prótein)) og þriðja var Jersey 1561 frá Gili með 905 kg. verðefni(11.758 kg mjólk*(4,09% fita + 3,61% prótein)).
Þyngsta nautið 2022 í Skagafirði var S-A Valur 1180 frá Hofsstaðaseli, 501,1 kg og flokkaðist í UN U2+, hann var 826 daga gamall (27 mánaða).
Mestum vaxtarhraða náði naut númer 1166 S-A Dalmar frá Hofsstaðaseli 630,6 g/dag/fallþunga. Hann var 758 daga gamall (25 mánuða). Fallþungi 497,4 kg UN U3-.
Stigahæstu kýrnar úr árgangi 2017 í Skagafirði voru verðlaunaðar og þær sem efstar stóðu voru jafnar, Beylis 727 og Gíslíana 669 með 298 stig hvor frá Glaumbæ. Í þriðja sæti var kýr nr. 950 frá Hrauni með 297 stig. Stigin eru reiknuð útlitsdómur sinnum tveir plús afurðaeinkunn. Kýrnar þurftu að vera undir 30 mánaða við fyrsta burð og lifandi í árslok 2022,“ segir í færslu formannsins sem óskar í lokin öllum ábúendum og fjósameisturum á þessum bæjum innilega til hamingju með frábæran árangur. Feykir tekur undir þá kveðju.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.