Yfir 60 iðkendur á Símamótinu frá Norðurlandi vestra
Um þessa helgi fer fram risa knattspyrnumót fyrir 5., 6. og 7. flokk kvenna í Kópavogi undir yfirskriftinni Símamótið og er þetta í 40. skiptið sem það er haldið. Tindastóll og Hvöt/Fram sendu að sjálfsögðu nokkur lið til leiks og má áætla að það séu yfir 60 iðkendur frá Norðurlandi vestra á svæðinu.
Hvöt/Fram sendi frá sér þrjú lið, eitt í 5. flokki og tvö í 6. flokki. Tindastóll sendi frá sér níu lið, tvö lið í 5. flokki, fjögur lið í 6. flokki og þrjú lið í 7. flokki. Mótið var sett í gær með skrúðgöngu en leikirnir hófust á slaginu átta í morgun og er spilað til kl. 16 í dag. Þá er öllum stelpunum boðið á landsleikinn hjá kvennaliði Íslands á Laugardalsvelli sem hefst kl. 16:15.
Þegar þetta er ritað þá eru liðin að norðan að klára sína leiki og niðurstöður bæði jákvæðar og neikvæðar og mikið gengið á eins og alltaf. Alltaf er jafn gaman að fylgjast með stelpunum því öll svona mót eru lærdómsrík og oft má sjá miklar framfarir bæði hjá einstaklingum og liðunum í heild. Eftir daginn í dag raðast svo niður, eftir því hvernig gekk, í milliriðla og byrja leikar strax kl. 8 í fyrramálið.
Undirrituð þekkir að sjálfsögðu eitthvað smá til þessa móts því þegar ég var ung og lipur þá var farið á þau nokkur. Það var reyndar kallað Gull og silfurmótið á þeim tíma og var besti árangurinn okkar 4. sætið. Við lentum í hlutkesti um 3. sætið eftir margar framlengingar sem ég mun seint gleyma því ég valdi fiskinn en upp kom skjöldurinn og verðlaunapallurinn því ekki staðreynd. Það var því grenjað í langan tíma og þetta var mjög erfitt fyrir litlu sálina… fengum í sárabætur háttvísiverðlaun mótsins, ef ég man rétt, en mótin voru alltaf jafn skemmtileg.
Áfram Tindastóll og Hvöt/Fram
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.