Von á Azamara Quest í heimsókn
Fyrsta skemmtiferðaskipið þetta sumarið kemur til Sauðárkróks fimmtudaginn 4. júlí. Alls eru komur skemmtiferðaskipa til Sauðárkróks átta talsins í sumar og þar af þrjár með viðkomu í Drangey. Veðurguðirnir virðast ætla að spila með í þessari Íslandsupplifun ferðalanganna og stefna á að bjóða upp á alíslenskt sumarveður; vægan hita, alskýjað og ferska norðanátt.
Það er Azamara Quest sem siglir inn Skagafjörðinn á fimmtudag og leggst við akkeri en farþegar verða ferjaðir í land í smábátahöfnina samkvæmt upplýsingum Feykis. Skipið getur tekið yfir 700 farþega.
Næsta skip er síðan væntanlegt um miðjan júlí en það verður pínu skemmtiferðaskipahasar í lok júlí en þá koma þrjú skip til hafnar á Króknum á fimm dögum. Loks er von á tveimur skipum um miðjan ágúst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.