Vill ná náttúrulegum myndum þar sem fólki líður vel í sínu elementi

Í myndasyrpunni hér að neðan eru myndir frá Írisi Ösp úr brúðkaupsmyndatökum og myndir sem tengjast sýningunni sem hún setti upp og kallast Hringir. Auk þess er að finna myndir af ljósmyndaranum.
Í myndasyrpunni hér að neðan eru myndir frá Írisi Ösp úr brúðkaupsmyndatökum og myndir sem tengjast sýningunni sem hún setti upp og kallast Hringir. Auk þess er að finna myndir af ljósmyndaranum.

Brúðkaupsdagurinn getur verið misjafn hjá fólki. Sumir skjótast til sýslumanns og svo kannski út að borða, birta jafnvel eina sjálfu á Facebook í tilefni af tímamótunum. Önnur pör leggja heldur meira í daginn. Undirbúningur tekur kannski fleiri mánuði, fjöldanum öllum af fólki er boðið með tilheyrandi umstangi og allt gert og ekkert til sparað til að búa til ógleymanlegan hamingjudag. Eitt af því sem flestir vilja er að eiga fallegar og skemmtilegar myndir frá deginum stóra. Og þá er eins gott fyrir myndasmiðinn að klúðra ekki tökunni. Feykir hafði samband við Írisi Ösp Sveinbjörnsdóttur, hönnuð og ljósmyndara, og spurði aðeins út í brúðarmyndatökur og eitt og annað tengt.

Íris Ösp er Króksari að uppruna, fædd sumarið 1981 og dóttir Maríu Lóu Friðjónsdóttur og Sveinbjörns Ragnarssonar. Hún býr nú á höfuðborgarsvæðinu, er í sambúð með Rögnvaldi Óla Jónssyni, á þrjú börn + bónusbörn, eins og hún segir sjálf. Hún kláraði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík og Accademia Italiana í Flórens á Ítalíu. Nú starfar hún hjá ENNEMM auglýsingastofu við auglýsingagerð og ljósmyndun en er til hliðar með Reykjavík Underground Design Studio fyrir sína persónulegu vinnu.

„Ég hef alltaf leitað í sköpun og uni mér best í skapandi umhverfi,“ segir Íris þegar hún er spurð hvað hafi leitt hana á braut hönnunar og ljósmyndunar. „Ég byrjaði mjög ung að munda myndavélina og hef alltaf verið að búa eitthvað til í höndunum. Ég var búin að vinna við auglýsingagerð og alltaf að taka myndir við alls kyns tilefni í nokkur ár þegar ég ákvað loksins að ná mér í BA gráðuna. Þá fór ég alla leið og nam grafíska hönnun og ljósmyndun í fjögur ár í Flórens á Ítalíu.“

Ég geri ráð fyrir að það fari vel á því að geta blandað þessu tvennu saman í starfi? „Fyrir mig er þetta algjör draumur, ég elska að gera hvort tveggja og það eru svo mikil forréttindi að starfa við það sem maður elskar. Svo brýtur þetta líka oft upp vikuna á stofunni þegar ég fæ verkefni utanhúss og get þar af leiðandi staðið upp frá tölvunni við og við.“

Hvað er skemmtilegast við að vinna við hönnun? „Oooh, þetta er nú yfirleitt allt svo skemmtilegt! Það hefur líka svo mikið að segja að vinna á skemmtilegum vinnustað með yndislegu fólki sem bæði fær þig til að hlæja og gefur þér innblástur og hvatningu. Ég hef verið að vinna mikið undanfarið fyrir Smáralindina og er stolt af því teymi. Ég er einnig mjög stolt af merki Skógarbaða sem ég hannaði, BBQ bókin hans Alfreðs Fannars var líka skemmtilegt verkefni og svo eiga „Hringir“ sérstakan stað í hjartanu,“ segir Íris. „Það er auðvitað skemmtilegast þegar kúnninn treystir manni og gefur manni nokkuð frjálsar hendur til að skapa. Svo eru það báðar hliðar á ólíkum verkefnum. Til dæmis bókin BBQ kóngurinn var unnin í samstarfi með Fannari Scheving, þar fékk ég útlitspælingar og hugmyndir um teikningar sem ég fylgdi eftir og setti upp og teiknaði eins og mér fannst henta verkefninu sem gekk mjög vel eftir. Svo er hin hliðin eins og nýjasta Smáralindar-auglýsingin sem er unnin í risastóru teymi en allir hlekkir þurfa að haldast í hendur til að allt gangi vel.“

Er þetta erfið vinna eða mætir þú hverjum degi með bros á vör og full af áhuga á þeim verkefnum sem þú ert að fást við? „Ég hef alltaf verið léttlynd og jákvæð í eðli mínu þannig að langflesta daga er ég spennt fyrir því sem koma skal. Auðvitað þarf maður samt að fá skapandi örvun í starfi og að finna eða sækja sér innblástur. Þetta er ekki líkamlega erfið vinna en það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir að þetta er samt krefjandi starf þótt að það sé gaman í vinnunni.“

Tekurðu vinnuna með þér heim? „Já, ósjálfrátt tek ég vinnuna með heim, það er ekkert alltaf ætlunin, stundum sé ég eitthvað og það leiðir hugann eitthvert sem kveikir hugmynd. Ósjaldan fæ ég líka hugmyndir þegar ég er að reyna að sofna. Það er bara eitthvað sem ég ræð ekki við.“

Hvað er það sem kveikir helst í þér þegar þú ert með myndavélina á lofti, eftir hverju ertu að leita? „Það er ekkert eitt sem kveikir mér, það fer svolítið eftir mómentinu. Fólk yfirhöfuð heillar mig. Kannski meira að hver einasta manneskja á sína sögu, sinn persónuleika, sína drauma, frekar en myndin sjálf. Portrett myndatökur eru einstaklega heillandi. Svo eyddi ég einu sinni góðu broti úr degi í að stelast til að mynda fólk á flugvelli í London, svo fallegt að sjá bæði tilfinningarnar þegar fólk er að kveðja og gleðina þegar það á endurfundi, jafnvel eftir langan tíma. Mynstur í náttúrunni eru mér líka ofarlega í huga og þá fer það eftir þemanu sem ég er að vinna að.“

Er einhver ein mynd sem þú hefur tekið sem þér þykir vænst um? „Ég á mjög margar uppáhalds myndir en mér er minnistætt þegar ég var með ljósmyndasýningu í Reykjavík eftir útskrift úr Myndlistaskólanum og ein mynd af dóttur minni, sem ég var einstaklega ánægð með, var stolið af sýningunni. Hún var ekkert lítil heldur, u.þ.b. 50x70 cm. Kennararnir mínir vildu þó meina að þetta væri nú eitt mesta hrós sem væri hægt að fá en ég hefði nú samt alveg þegið einhvern aur í skiptum,“ segir Íris hlæjandi.

„Þetta er jú gleðidagur og fólk á fyrst og fremst
að njóta hans og ástarinnar í botn“

Snúum okkur þá að máli málanna; brúðkaupsmyndatökum. Íris tekur fram að hún hefur ekki myndað mörg brúðkaup um ævina, hefur kannski síðustu árin verið að mynda tvö brúðkaup á sumri. Það er gríðarmargt sem ljósmyndarinn þarf að hugsa fyrir og passa upp á svo vel sé í jafn viðamiklu verkefni og brúðkaupsmyndataka er. Þó ýmsu megi bjarga í dag með stafrænu tækninni þá bjargar hún ekki öllu – setur ekki bros á andlitin í það minnsta.

Brúðkaupsmyndatökur eru töluvert stressandi fyrir ljósmyndarann reikna ég með, enda verða stundin og dagurinn varla endurtekin. Hvernig skipuleggur þú brúðkaupsmyndatöku? „Ég tek brúðkaupsmyndatökur alvarlega og er alltaf gríðarlega þakklát þegar fólk treystir mér fyrir þeim. Ég spyr alltaf fólk áður en stóri dagurinn rennur upp hvort það hafi eitthvað sérstakt í huga varðandi myndatökuna. Það er allur gangur á því hverju fólk er að leita eftir. Sumir vilja náttúrulega hafa ljósmyndarann frá undirbúningnum og fram yfir veisluna en langflestir í kirkjunni og í brúðkaupsmyndatökunni sjálfri. Sumir vilja að myndatakan eigi sér stað á ákveðnum stað í náttúrunni en annars er ég að sanka að mér skemmtilegum staðsetningum fyrir komandi myndatökur og fer oft og skoða nágrennið við kirkjurnar á undan. Ég bý mér til mood boardsem ég hef til hliðsjónar sem hugmyndabanka en svo kvikna alltaf einhverjar hugmyndir í myndatökunum sjálfum. Myndatökurnar hjá mér eru ekki mjög formfastar, ég legg meira upp úr því að fólki líði vel til að ná náttúrulegum myndum þar sem fólki líður vel í sínu elementi.

Hvaða græjur ertu að nota þegar þú myndar brúðkaup og hverju má ekki gleyma? „Ég er yfirleitt alltaf að mynda brúðkaupsmyndatökuna sjálfa utandyra. Fallegasta birtan fyrir ljósmyndun er að mínu mati náttúruleg birta. Bestu skilyrðin eru líka ef það er ekki mikil sól, því ekki vill maður að brúðhjónin þurfi að píra augun, en þetta er nú yfirleitt ekki vandamál á Íslandi. Linsan sem ég er yfirleitt með inni í kirkjunni er líka með lágt ljósop svo ég þarf yfirleitt ekki einu sinni að nota flass. Auka batterý og auka minniskort er möst í svona stóra töku.“

Mörgum þykir gríðarlega erfitt að sitja fyrir. Ertu með einhver spes trikk til að láta fólki líða betur fyrir framan myndavélina? „Það er mjög mikilvægt að geta grínast svolítið svo að fólki líði vel fyrir framan myndavélina og líði vel í návist manns, finni fyrir trausti og sé þar af leiðandi tilbúið til að leyfa manni að „stýra“ því, innan ákveðinna marka.“

Hverju þurfa brúðhjónin að muna eftir – eða gleyma – í myndatökunni? „Kannski helst að taka sig ekki of alvarlega því þetta er jú gleðidagur og fólk á fyrst og fremst að njóta hans og ástarinnar í botn – það er svo mitt að fanga augnablikið.“

Ertu með fastmótaðar hugmyndir um myndatökuna eða gerist alltaf eitthvað spontant, einhver galdur sem gerirmyndatökuna? „Það er alltaf undirbúningur, ég hef aldrei farið í myndatöku óundirbúin en jafnframt er alltaf eitthvað sem kemur upp á, einhver hugmynd sem kviknar, stundum áður og oft á staðnum. Ég prófaði t.d. að taka með mér spegil í myndatöku í sumar og fannst það koma skemmtilega út.“

Hvað er það helst sem getur gert brúðarmyndatöku erfiða? „Það er þá helst að fólk er búið að gera sér í hugarlund einhvern draumadag þar sem engu má út af bregða. Ég skil að væntingarnar eru miklar, enda ætlar maður sér bara að gera þetta einu sinni yfir ævina. Ég lenti einu sinni í því að brúðurinn fór alveg í kleinu með tárin í augunum út af hlut sem ég man ekki einu sinni nákvæmlega hver var en það var eitthvað álíka eins og bindi brúgumans var ekki komið í hús – en samt alveg þrír klukkutímar í athöfn. Fólk á að reyna að minna sig á að njóta dagsins og taka því sem koma skal og reyna að gera gott úr því sem miður fer. Svona bara eins og í lífinu.“

Nú er sennilega allur gangur á því hvernig ljósmyndarar skila af sér brúðarmyndum. Hvaða leið ferð þú eða hverju mælir þú með? „Eftir að Facebook og Instagram tröllriðu yfir heiminn er fólk mjög spennt að pósta myndum á samfélagsmiðlum fljótlega eftir brúðkaup. Ég veit það og ég skil það. Venjan er að ég vel út 6-10 myndir ca. sem ná mér strax og vinn þær fyrst og sendi í þannig upplausn að fólk geti hent þeim út í alheiminn. Svo koma hinar í kjölfarið. Eftirvinnslan er reyndar mjög mismunandi, sumir vilja fá einhverja ákveðna stemmingu, mood í litatónum og svo eru svart hvítar myndir alltaf tímalausar og fallegar.“

Er einhver brúðarmyndataka sem er eftirminnilegust? „Það er alltaf eitthvað sérstakt við hverja einustu myndatöku sem gerir hana sérstaka, en það var hrikalega fyndið þegar brúður sendi mér einu sinni staðsetningu á google maps því þau eiga sérstakan stað sem þau vildu mynda á fyrir brúðkaupið sjálft. Ég hugsaði á leiðinni að það hefði kannski verið ágætt að láta mig vita að ég þyrfti sérútbúinn jeppa til að komast á áfangastað en Toyotan mín fékk heldur betur að finna fyrir því, því þangað skyldi ég komast og vel áður en brúðhjónin mættu á svæðið til að vera búin að kynna mér staðhætti. Ég var komin eitthvert lengst inni í dal, keyrandi torfæruslóða án símasambands og skildi ekkert hvað væri svona heillandi við þetta umhverfi. Þegar ég tók svo ákvörðun um að fara til baka og fá bara far með brúðhjónunum, komst ég í símasamband og þá kom í ljós að ég var á kolröngum stað. Allir gátu hlegið að þessu og myndatakan gekk ljómandi vel,“ segir Íris Ösp að lokum.

Hringir

Íris Ösp setti upp ljósmyndasýningu í Kaupmannahöfn í apríl á þessu ári. Feykir spurði hana út í verkefnið og hvernig hafi gengið.

„Hringir er verkefni sem ég er búin að vera að vinna að síðan 2016. Ég var að vinna í ljósmyndaverkefni á Snæfellsnesi og sit í mosanum í smá pásu og fer að velta fyrir mér hversu falleg munstrin voru í hrauninu og mosanum. Þarna kviknaði hugmyndin. Það eru svo margir færir landslagsljósmyndarar að gera geggjaða hluti og mér finnst ég ekki þurfa að taka pláss þar. Fór meira að hugsa um þessa liti og mynstur í náttúrunni sem hverfa svo oft bara undir skósólann hjá okkur og endaði á að kaupa mér macro linsu sem er þeim hæfileika gædd að geta súmmað nær viðfangsefninu í góðum gæðum. Fyrsta serían „Hraun og mosi“ var sett að hluta til upp í Norræna húsinu vorið 2020 og stóð yfir í meira en ár. Næsta sería „Fjaran“ var svo sett upp í Gallerý Gróttu haustið 2021. Við myndirnar fæddust svo ljóð sem allar tengdust móður jörð og tengingunni milli hennar og mæðra. Þessi pæling að við eigum öll sameiginlegu móðurina. Móðirina sem getur verið svo mjúk og hlý en líka hrjúf og hörð. Pælingin með hringformið er þessi tenging við hið óendanlega og mjúkar línur náttúrunar, móður náttúru. Þegar ég var búin að vinna fjórar seríur gaf ég út ljósmynda- og ljóðabók og var með útgáfuhóf í Kaupmannahöfn ásamt myndum úr fyrstu fjórum seríunum – Það gekk vonum framar og ég er ennþá í skýjunum með sýninguna. Það er svo magnað hvað fólk er að tengja við myndirnar. Sumir tengja mest við fjöruna, aðrir við skóginn osfv.

Ég er ekki góð í að markaðsetja sjálfa mig og er að leita mér að umboðsmanni til að koma verkunum mínum á framfæri og í sölu – blikk, blikk.“

- - - - -
Hægt er að skoða síðu Írisar: https://www.reykjavik-underground.com/hringir

Og Instagram: @hringir.circles

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir