Vilja slá upptakt að „framhaldslífi“ Byggðasögu Skagafjarðar :: Málþing um áhrif Byggðasöguritunar

Vonir standa til að Byggðasaga Skagafjarðar geti nýst til frekari rannsókna í framtíðinni. Mynd: ÓAB.
Vonir standa til að Byggðasaga Skagafjarðar geti nýst til frekari rannsókna í framtíðinni. Mynd: ÓAB.

Málþing um áhrif byggðasöguritunar verður haldið næsta föstudag, 30. september, milli kl. 10 og 18 að Hólum í Hjaltadal. Fjallað verður um ritun byggðasögu frá ýmsum hliðum í tilefni af því að lokið er útgáfu Byggðasögu Skagafjarðar. Reynt verður að svara því hver áhrif slíks verks kann að vera á byggðaþróun, ferðaþjónustu, minjavörslu, ímyndarsköpun og sagnfræði? Málþingið er í boði Sögufélags Skagfirðinga og Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum og styrkir Menningarsjóður Kaupfélags Skagfirðinga þingið.

Hólar í Hjaltadal í júlí í sumar. Mynd: PF.

Fjöldi fyrirlesara munu fjalla um málið frá mörgum hliðum en í málþingsnefnd eru þau Laufey Haraldsdóttir, Unnar Rafn Ingvarsson og Sigríður Sigurðardóttir sem er málþingsstjóri.

„Á málþinginu verður m.a. fjallað um hvernig byggðasöguritun getur nýst til frekari rannsókna. Heimildir þær sem Hjalti Pálsson og samstarfsfólk hans söfnuðu við ritun Byggðasögu Skagafjarðar geta reynst afar mikilvægur heimildabanki fyrir ýmiskonar athuganir, ný verkefni og nýsköpun. Við viljum vekja athygli á þessu merkilega verki og þakka þeim sem studdu við gerð þess. Það er sannfæring okkar að Byggðasaga Skagfirðinga verði að mörgu leyti fyrirmynd af viðlíka verkum og þrátt fyrir að þau verði ávallt mjög kostnaðarsöm er mikilvægt fyrir íbúa hverrar byggðar að þekkja umhverfi sitt í fortíð og nútíð. Um leið viljum við benda á hvernig hægt er að nýta byggðasögu í minjavörslu, í skipulagsvinnu og í ferðaþjónustu sem fæst við svæðisbundinn menningararf og hvernig saga byggða skiptir máli fyrir ímyndarsköpun. Möguleikarnir eru margir,“ segir Sigríður.

Hún segir málþingið vera vettvang allra þeirra sem áhuga hafa á sögunni og umhverfi sínu og ekki síst fyrir þá sem vinna að skipulags- og ferðamálum, byggðasögu- og minjatengdum málefnum, í nútíma samfélagi.

Hvert og eitt erindi hápunktur

Þau eru mörg forvitnileg erindin sem fram koma í dagskrá, og ýmsar spurningar sem vakna, m.a. hvert gildi byggðasögunnar er fyrir minjavörsluna eða þá hvers virði ein Byggðasaga er. Er hægt að svara öllum þessum spurningum?
„Spurningar eins og þessar eru mikilvægar og svörin vitum við kannski eftir aða hafa hlustað á erindin,“ segir Sigríður en hver skyldi hápunktur málþingsins vera að hennar mati? „Hvert og eitt erindi er hápunktur en ég nefni lokaafurð Byggðasögunnar, sem verður kynnt, en það er stafrænn mannanafnalisti sem nær yfir öll bindin og mun auðvelda mjög notkun hennar.“

Sigríður Sigurðardóttir, málþingsstjóri. Mynd af holar.is.

Sigríður segir að málþingsnefndin, þ.e. hún sjálf, Laufey Haraldsdóttir, lektor, og Unnar Rafn Ingvarsson, fagstjóri, hafi verið sammála um það frá upphafi að með þessu málþingi hafi þau viljað slá upptakt að „framhaldslífi“ Byggðasögu Skagafjarðar, því hægt er að nota þetta einstæða og mikla verk sem gagnagrunn fyrir svo margar greinar, mörg svið og vildu þau benda á tækifærin til þess.

„Þess vegna verða viðraðir margvíslegir möguleikar á málþinginu sem lúta að praktískri notkun hennar í námi, starfi og rannsóknum og sömuleiðis áhrif hennar fram í tímann. Þetta snýst ekki bara um Skagafjörð heldur þurfum við að velta fyrir okkur spurningunni um hvaða gildi það hefur fyrir samfélög, hvort sem þau eru stór eða smá, að þekkja sögu sína.“

 

Aðgangur á málþingið er ókeypis og verður eingöngu í mannheimum, þ.e. staðarþing, en óskað er eftir því að fólk skrái sig á vefsíðunni www.holar.is en skráningu lýkur í dag, 28. september. „Þú þarft að mæta til að njóta,“ segir Sigríður að lokum.

Dagskrá málþingsins má finna HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir