Viðtal - Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor við Háskólann á Hólum

Nú fyrir skemmstu fóru fram rektorskipti við Háskólann á Hólum og tók þá Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir við stöðu rektors. Hólmfríður er með meistaragráðu í næringarfræði og doktorsgráðu í matvælafræði, hún hefur komið að mótun og uppbyggingu nokkurra verkefna og er búin að setja sitt mark á nýsköpun hérlendis. Feykir hafði samband við Hólmfríði og forvitnaðist aðeins um þessi tímamót hjá henni og Háskólanum á Hólum.

Nú áttu þegar glæstan starfsferil að baki við rannsóknir, þróun og nýsköpun. Hvernig mun reynsla þín og þekking hafa áhrif á stefnu og áherslu skólans?  
Háskólinn á Hólum er háskóli býður upp á nám á þremur fræðasviðum sem eru hestafræði, ferðamálafræði og fiskeldis-, sjávar- og vatnalíffræði.  Öll þessi svið styðja við atvinnugreinar sem eru í örri þróun með rannsóknum en ekki síst varðveislu og miðlun þekkingar og menntun sérfræðinga. Ég mun leggjast á árar með starfsfólki skólans við að útvíkka og efla rannsóknirnar en ekki síður við miðlun þekkingar og kennslu til að bregðast við nýjum áskorunum og halda áfram að styðja við þróun atvinnugreinanna. Ég hef fengið tækifæri á mínum starfsferli til að vinna í nánu samstarfi við atvinnulífið og við nýsköpun og þróun innan fyrirtækja í samstarfi við háskóla og rannsóknastofnanir. Sú reynsla mun nýtast við að byggja upp enn öflugra samstarf við atvinnulífið, aðra háskóla og verða virkur þátttakandi í eflingu þekkingar og nýsköpunar innan fyrirtækja og stofnana, og í samfélaginu almennt.   


Hvað er það sem þér finnst mest spennandi við að takast á við þetta verkefni?  Mér finnst tækifæri sem felast í því að byggja háskólann enn frekar upp í takt við þarfir atvinnulífsins og breytinga í samfélaginu mest spennandi. Hjá fiskeldis- og fiskalíffræðideild eru t.d. stundaðar afar mikilvægar rannsóknir á vistfræði og þróun fiska í vötnum. Þessi þekking nýtist m.a. til að skilja hvernig lífverur og vistkerfi geta brugðist við og aðlagast breyttum aðstæðum sem verða með tímanum, m.a. vegna áhrifa mannsins. Þessar rannsóknir auka ekki síst skilning okkar á hvaða afleiðingar hlýnandi veðurfar getur haft á vistkerfi og fjölbreytileika þeirra og eru því afar mikilvægar. Fiskeldi er sú grein sem talin er að muni bera uppi aukna eftirspurn eftir mat í heiminum. Mikil eftirspurn er eftir sérhæfðu starfsfólki innan fiskeldisins og er Háskólinn á Hólum eini háskólinn á Íslandi sem er að mennta fólk á sviði fiskeldis. Háskólinn á Hólum hefur einnig haft yfirumsjón með kynbótum á bleikju í fjöldamörg ár. Fiskeldið býður upp á mikla möguleika á alls kyns nýsköpun með auknum rannsóknum og mikilvægt er að vera í góðu sambandi við iðnaðinn. Það eru líka miklir möguleikar í eldi á nýjum tegundum sem annað hvort eru aldar sér eða í samrækt með fiskinum eins og þörungar eða skel- og skrápdýr. Eins og er þá er engin menntastofnun að mennta einstaklinga á sviði þörungaræktar. Hér er Háskólinn á Hólum í kjör aðstöðu sem eini háskólinn á Íslandi sem er með fræðasvið um eldi í vatni. Það er nauðsynlegt að byggja upp nýja kennslu- og rannsóknaaðstöðu við fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans og þar myndi aðstaða til kennslu og rannsókna á sviði þörunga smellpassa.

Í hestafræðideildinni erum við með mjög sérhæfða þekkingu á íslenska hestinum og aðstaðan á Hólum er einstök til kennslu, rannsókna og hestahalds. Námið sem byggt hefur verið upp í kringum reiðmennsku og kennslu býður upp á mikil tækifæri í að stækka iðkendahóp og fagmennsku í hestamennsku enn frekar. Nemendur sem farið hafa í gegnum námið búa yfir mikilli þekkingu á hestinum og hvernig nota má hestinn í reiðmennsku en líka hvernig hægt er að kenna fólki að nota hestinn sér til skemmtunar og gagns. Hér eru t.d. tækifæri til að nýta hestinn í endurhæfingu fólks eftir slys, sem og hluta af meðferðarúrræði við kvíða og áfallastreitu svo eitthvað sé nefnt.  

Sömuleiðis er ég spennt fyrir ferðamáladeild skólans sem styður við eina mikilvægustu efnahagsstoð landsins. Covid-19 breytti ferðahegðun fólks sem leitar í sívaxandi mæli að upplifun utan þéttbýlis. Staðsetning Háskólans á Hólum býður upp á auknar rannsóknir og þróun á sviði ferðamennsku utan þéttbýlis og þar er Tröllaskaginn algjör fjársjóður sem við Skagfirðingar þurfum að fara að nýta okkur í mun meira mæli til að efla ferðamennsku á svæðinu. Þetta eru okkar Alpar. En aftur að skólanum þá finnst mér viðfangsefni doktorsritgerðar Ingibjargar Sigurðardóttur, deildastjóra ferðamáladeildar afar áhugaverð m.t.t. rannsókna þvert á deildir háskólans og langar hér til að sjá okkur nýta niðurstöður rannsóknanna til að vinna enn meira þvert á deildir og efla bæði hestamennsku en ekki síður fiskeldi innan ferðaþjónustugeirans. Í doktorsritgerð Ingibjargar var fjallað um hestaferðaþjónustu sem atvinnugrein. Leitað var svara við því hvað einkennir þróun greinarinnar á Íslandi og með hvaða hætti greinin sjálf, tengdar atvinnugreinar og klasar, rekstrarumhverfið og tiltækar auðlindir geta stuðlað að aukinni samkeppnishæfni.
Meginniðurstaða rannsóknarinnar var dregin saman í líkani um mikilvæga samkeppnisþætti hestaferðaþjónustu.


Munum við sjá aukna vinnu með sprotafyrirtækjum?  Já, ég mun beita mér fyrir því að efla tengingar skólans við nýsköpun í starfandi fyrirtækjum en líka við frumkvöðla. Skólinn er nú þegar þátttakandi í verkefni sem mér finnst vera mest spennandi nýsköpunarverkefnið í matvælaframleiðslu á Íslandi í dag. Um er að ræða sprotafyrirtækið Ísponica sem er staðsett á Hólum og sérhæfir það sig í samrækt á fiskum og sprettum (e. microgreens). Spretturnar eru seldar bæði í Hlíðarkaup og Skagfirðingabúð. Ísponica hefur tekið þátt í nokkrum nýsköpunarkeppnum og varð fyrirtækið m.a. í öðru sæti í AWE nýsköpunarkeppninni sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og bandaríska sendiráðsins. Síðan er hestafræðideild háskólans í samstarfi við sprotafyrirtækið HorseDay um þróun á smáforriti (appi) sem heitir HorseDay. Forritinu er ætlað að halda utan um þjálfun og umhirðu hestsins ásamt upplýsingum úr WorldFengur.  

Varðandi ferðamáladeild skólans eru ótal tækifæri til að tengjast framþróun í ferðamannaiðnaði og er skólinn framarlega í þróun á ferðamennsku utan þéttbýlis og hefur því mikil tækifæri til að tengjast sprotafyrirtækjum og frumkvöðlum í ferðamennsku.

Háskólinn á Hólum er einn af stofnendum Auðnu Tæknitorgs sem sinnir tækni- og þekkingaryfirfærslu fyrir alla háskóla landsins og höfum við áform um að tengjast þeim enn frekar með þau nýsköpunar- og þróunarverkefni sem háskólinn er þátttakandi í.  

Hér á Norðurlandi vestra vantar okkur tilfinnanlega nýsköpunarhús þar sem háskóli, atvinnulíf og frumkvöðlar starfa saman að nýsköpun undir einu þaki. Í allri framþróun og nýsköpun er samstarf við háskóla mikilvægt. Við erum svo heppin hér að vera með háskóla á svæðinu og við eigum að nýta okkur það og byggja nýsköpunarhús á svæðinu. Þannig aukum við framþróun og verðmætar afurðir og sérhæfð störf verða til sem auka samkeppnishæfni og seiglu svæðisins.

Hvað sérðu fyrir þér að gera til að styrkja stöðu skólans?  Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir Háskólann á Hólum að vera vakandi fyrir örum breytingum í umhverfinu og samfélaginu og eftirspurn eftir sérhæfðu vinnuafli. Við erum með fræðasvið sem byggja undir mikilvægar atvinnugreinar í örum vexti. Hér er mikilvægt að fylgjast með og tengja kjarna starfseminnar við samfélagið. Sem dæmi eru rannsóknir okkar á atferli, þroskun og vistfræði fiska mikilvægar og sér í lagi vegna þeirra öru breytinga sem eru að verða á búsvæðum fiska með hlýnun jarðar og fjölgun jarðarbúa. Fiskeldisnámið okkar er mikilvægt fyrir sístækkandi iðnað á Íslandi. Hér þurfum við að efla okkur með því að auka enn frekar þátttöku í rannsóknum. Við þurfum t.d. að horfa í átt að samræktun, þ.e. að rækta aðrar lífverur í samneyti við fiskinn sem virka eins og lífhreinsar í eldiskerfinu og gera fiskeldið vistvænna. Þetta eru lífverur sem þrífast á úrgangi úr fiskinum.  

Meiri fjölbreytileiki í eldiskerfunum getur hjálpað til með lifun og dregið úr sjúkdómshættum. Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum var virkur þátttakandi í að nota hrognkelsi til að draga úr álagi af völdum laxalúsar í kvíum og eru hrognkelsi í auknu mæli notuð til að sporna við laxalús í eldi.  

Til að styrkja hestafræðideild skólans er fyrst og fremst mikilvægt að byggja ofan á þá sérstöðu sem hestafræðideild skólans hefur skapað sér varðandi þekkingu og kennslu í reiðmennsku. Hér þurfum við að breikka fræðasviðið með því að auka við rannsóknahluta deildarinnar. Við þurfum að byggja upp rannsóknasetur íslenska hestsins við Háskólann á Hólum. Það er svo margt sem við vitum ekki um hestinn sem þarf að rannsaka til að byggja undir og þróa hestamennskuna enn frekar.

Fyrir ferðamáladeildina eru tækifæri til að eflast með aukinni þróun námsleiða til að anna allri þeirri eftirspurn eftir sérhæfðu starfsfólki fyrir greinina. Ferðamennskan er í örri þróun og því þarf að fylgja eftir með menntun sérhæfðs starfsfólks sem getur skilað sér hratt út í atvinnulífið og stutt þannig við þróunina og vöxtinn. Háskólinn er nú þegar með styttri námsleiðir í boði eins og viðburðastjórnun sem hafa heppnast afar vel og eru vinsælar.
Almennt tel ég að skólinn eigi að vera í góðu samtali við samfélagið, stjórnvöld og atvinnulífið og þá sér í lagi atvinnugreinarnar sem fræðigreinar skólans byggja undir til að styrkja sig enn frekar. Til þess að bregðast við aukinni þörf eftir þekkingu og sérhæfðri menntun þurfum við að horfa enn frekar í átt til samstarfs við aðra háskóla og þá ekki einungis á Íslandi heldur líka erlendis til að styrkja skólann. Háskólinn á Hólum býður nú þegar upp á mikið af sinni kennslu í fjarnámi og því eru miklir möguleikar á að auka enn meira framboð náms við skólann í samstarfi við aðra háskóla. 

Fyrir utan að finnast styttri námsleiðir áhugaverður kostur fyrir skólann, til að styrkja sig og bregðast við aukinni eftirspurn eftir sérhæfðu starfsfólki, þá er mikilvægt að horfa til þess að byggja upp fjórða fræðasviðið til að opna á þann möguleika að bjóða upp á doktorsnám við háskólann og styrkja þar með akademíska starfsemi háskólans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir