Vel heppnað byggðasöguþing á Hólum
Föstudaginn 30. september s.l. buðu Sögufélag Skagfirðinga og ferðamálafræðideild Háskólans á Hólum til málþings í tilefni af því að lokið er ritun Byggðasögu Skagafjarðar. Boðið var upp á fjölda erinda sem fjölluðu um ritun byggðasögu frá ýmsum hliðum. Fjallað var meðal annars um mikilvægi þess fyrir samfélög að hafa ritaða sögu sína og hvernig Byggðasaga Skagafjarðar hefur aukið þekkingu ábúenda á næruhverfi sínu.
Margir þeirra sem töluðu á málþinginu fjölluðu um það hvernig hægt væri að miðla efni Byggðasögu Skagafjarðar með öðrum hætti en í prentuðu riti og mikilvægi þess að huga að framhaldslífi hennar. Þó ritun byggðasögunnar væri vissulega mikilvægur áfangi væri mikið starf eftir óunnið við að gera þennan gríðarlega gagnabanka aðgengilegan með öðrum hætti.
Líflegar umræður urðu á þinginu og greinilegt að áhugi á ritun héraðssögu er að aukast. Fleiri eru að átta sig á því hvers virði sagan er meðal annars sem innlegg í ímyndarsköpun samfélaganna.
Í tilefni af málþinginu var opnuð leitarvél fyrir mannanöfn í Byggðasögunni. Leitarvélin inniheldur um 30.000 mannanöfn og er aðgengileg á heimasíðu Sögufélags Skagfirðinga. sogufelag.skagafjordur.is
/UI
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.