Varið ykkur á ótraustum ís og fræðið börnin um hættuna
Í kuldunum sem ríkt hefur undanfarið á landinu bláa hefur ís náð að myndast við sjávarborð við ströndina hér norðanlands og má þannig m.a. sjá í smábátahöfninni á Sauðárkróki. Feykir fékk ábendingu um hættulegan leik manns sem gengur á ísnum milli flotbryggja. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að illa getur farið ef ísinn bregst við þessar aðstæður en mynd af manninum náðist í myndavélakerfi Skagafjarðarhafna við höfnina að kvöldi síðasta þriðjudags.
Svona var umhorfs í fjörunni neðan Sauðárkróks
fyrir viku. Mynd: PF.
Vildi sá er upplýsingunum kom til Feykis vekja athygli á háskanum sem í leiknum felst og ekki síst ef börn færu að leika hann eftir. Vil hann hvetja foreldra til að brýna fyrir börum sínum hversu hættulegt athæfið er. Þá sagðist hann vita til þess að foreldri hafi haft afskipti af tveimur börnum í fjörunni á Borgarsandi sem voru komin langt út á ísinn sem þar myndaðist.
Ekki bárust svör við skriflegum fyrirspurnum til Lögreglunnar á Norðurlandi vestra en Lögreglan á Akureyri þurfti að hafa afskipti af fólki sem hafði gengið út á ísi lagðan Pollinn fyrr í vikunni. „Bara svo að það sé sagt, það er hreint ekki öruggt svo ekki sé dýpra í árinni tekið, í raun mjög hættulegt. Ekki fara út á Pollinn – ísinn. Það er ekki tekið til baka ef þið fallið niður um vök og/eða undir ísinn. Bæði er sjórinn um frostmark og síðan er straumur í firðinum og ekkert víst að þið komist upp aftur og erfitt að ná til þeirra sem falla niður. Biðlum til foreldra að ítreka við börn sín að þetta sé afar hættulegur leikur,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Akureyri.
Í athugasemd veðurfræðings Veðurstofunnar segir að vegna kulda undanfarið hafi víða myndast lagnaðarís í höfnum og fjörðum. „Fólk er eindregið varað við að ganga út á íshelluna, því hún getur verið ótrygg og jafnvel rekið frá landi.“
Ratsjármynd er úr SENTINEL-1 gervitungli Copernicus EU
Á Facebook-síðunni Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá, Háskóli Íslands, segir að undanfarna viku hafi ísmyndun sést úti fyrir árósum á Norðurlandi, m.a. á Axarfirði, Skjálfanda og Eyjafirði, og nú í gær á Skagafirði. „Ástæðan er sú að þegar árvatnið berst til hafsins, minnkar straumhraðinn á vatninu. Það er seltuminna og því léttara en sjórinn sem er undir. Ef ekki er hvasst - og þar með öldugangur og blöndun í efstu lögum sjávarins - þá verður til lagskipting í hafinu. Efsta lagið helst við yfirborð, kólnar auðveldlega eins og aðstæður hafa verið undanfarið (lágur lofthiti) og frýs. Ferskt vatn (seltustig 0) frýs við 0°C en fullsaltur sjór (seltustig 35 prómill) frýs við -1,92°C (Unnsteinn Stefánsson 1994). Það þarf sem sagt mun meira til að frysta salt vatn en ferskt vatn. Um leið og hvessir að ráði má gera ráð fyrir því að ísinn brotni upp, blöndun við neðri lög aukist og ísinn bráðni. Meðfylgjandi ratsjármynd er úr SENTINEL-1 gervitungli Copernicus EU. Mörk íshraflsins í gærmorgun eru merkt inn á myndina,“ segir í færslu Rannsóknarstofu í eldfjallafræði og náttúruvá.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.