Úreltum kynjahugmyndum sparkað - Fimm drengir saman á umönnunarvakt
Enn er talað um hefðbundin kvenna- eða karlastörf þó þær skilgreiningar séu hverfandi eftir árangursríkar aðgerðir með það að markmiði að brjóta niður úreltar hugmyndir um slíkt. Ungu kynslóðinni var t.d. bent á það í átaki fyrir fáum árum að allar leiðir væru færar í námi og starfi fyrir bæði kynin.
Átakið var á vegum Tækniskólans og Samtaka iðnaðarins í samstarfi við alla iðn- og verkmenntaskóla á landinu. Tilgangurinn var m.a. að vekja athygli á fjölbreyttum störfum í iðn-, tækni- og verkgreinum og benda á þann kynjamun sem hefur viðgengist í sumum starfsstéttum og var kastljósinu einkum beint að stúlkum og iðnnámi.
Líkt og mörg iðnstörf hafa verið skilgreind sem karlastörf hafa ýmis umönnunarstörf verið kölluð kvennastörf og því jákvætt að sjá að fyrir jólin voru fimm drengir á sömu vaktinni á hjúkrunardeild HSN á Sauðárkróki. Tveir þeirra eru í föstu starfi en þrír komu í afleysingu í jólafríi sínu.
„Það er mikill kostur að starfsmannahópurinn sé fjölbreyttur og við höfum alltaf fagnað því þegar svo er. Í vetur hafa fjórir ungir menn verið í föstu starfi við umönnun,“ segir Kristrún Snjólfsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur. Þeir sem starfa við umönnun sjá um að aðstoða íbúa hjúkrunarheimila við athafnir daglegs lífs. „Þetta er mjög fjölbreytt starf og afar gefandi og er góður undirbúningur fyrir frekara nám á þessu sviði. Við getum alltaf bætt við okkur góðu fólki og erum þegar farin að huga að sumarstörfunum og hvetjum þá sem hafa áhuga að hafa samband við okkur,“ segir Kristrún.
Hjá HSN á Sauðárkróki eru þrjár hjúkrunardeildir, 42 hjúkrunarrými samtals en einnig er dvalardeild þar sem eru níu dvalarrými.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.