Upplestur úr nýjum bókum á Króknum í kvöld

Í kvöld munu nokkrir rithöfundar lesa upp úr nýjum bókum sínum á bókasafninu á Sauðárkróki. Viðburðurinn hefst klukkan 20 og í boði verður, auk upplestursins, jólate og konfekt. Þess má geta að í sumum bókanna kemur Skagafjörður talsvert við sögu, segir í tilkynningu safnsins.

Höfundarnir eru:

Gunnar Helgason – Bannað að ljúga er framhald af metsölubókinni Bannað að eyðileggja sem sló í gegn í fyrra. Til viðbótar við litríka og fjöruga fjölskylduna eiga Alexander og Sóley nú í höggi við harðsvíraðan eineltispúka og alvöru glæpamann! Fyrir utan ADHD-ið, en það er nú bara hjálplegt, til dæmis þegar Alexander þarf að bjarga mannslífum.

 

Sigríður Hagalín – Hamingja þessa heims. Sagnfræðiprófessor í útlegð, ásakaður um ósæmilega framkomu, finnur gamalt handrit sem varpar nýju ljósi á löngu liðna sögu. Fimmtánda öldin er öldin sem týndist í Íslandssögunni, þegar þjóðin lenti skyndilega í hringiðu evrópskra stjórnmála og viðskiptahagsmuna. Hér stíga helstu persónur hennar ljóslifandi fram; með Ólöfu ríku í broddi fylkingar.

 

Sigmundur Ernir Rúnarsson – Spítalastelpan – Hversdagshetjan Vinsý. Spítalastelpan var hún kölluð stelpan sem veiktist af berklum í hrygg á Ströndum Norður og var fyrstu ár sín að mestu reyrð niður í rúm á Sjúkrahúsinu á Ísafirði. Hún byrjaði ekki að ganga fyrr en á sjöunda ári, sigldi heim þar sem faðir hennar var dáinn og móðirin búin að yfirgefa hana í huganum.

 

Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir – Aldrei nema vinnukona er sjálfstætt framhald bókarinnar Aldrei nema kona, sem kom út 2020. Sú bók hefur notið mikilla vinsælda, einkum fyrir glögga mynd af kjörum kvenna á 18. og 19. öld. Eins og í fyrri bókinni eru öll nöfn, tímasetningar og stærri viðburðir sannleikanum samkvæmir og stuðst við bréf og opinber skjalagögn auk ýmissa rita og vefsíðna sem fjalla um þennan tíma. Í þessari bók fer fram tvennum sögum, af ferðinni frá Íslandi til Ameríku og minningarbrotum Þuríðar Guðmundsdóttur úr vistum í Skagafirði og Húnavatnssýslum.

 

Einnig verður lesið úr nýrri bók Úlfars Þormóðssonar, Usla. - Ásmundur Gunnlaugsson fæddist 1789, lærði til prests og fékk síðan brauð á Siglufirði. Hann var drykkfelldur og átti í miklum erjum við sveitunga sína – oftar en ekki vegna þess að hann þótti mikill kvennaljómi og notfærði sér það. Hann missti embætti, hrökklaðist yfir í Skagafjörð, hélt þar uppteknum hætti og átti margbreytilegt líf og kostulegt. Hér dregur Úlfar Þormóðsson upp eftirminnilega mynd af óvenjulegum manni og Íslandi fyrri tíma; daglegu lífi og aðstæðum fólks, ekki síst kvenna sem mjög áttu undir högg að sækja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir