Uppfærður og endursmíðaður ljósakross á Nöfum
Samkvæmt venju var kveikt á ljósakrossinum á Nöfum á Sauðárkróki í hinni árlegu friðargöngu Árskóla sem fram fór föstudaginn fyrir aðventubyrjun. Að sögn Óskars Björnssonar, skólastjóra, var þetta í 24 skiptið sem nemendur skólans örkuðu í bæinn og létu ljósker ganga sín á milli á kirkjustígnum með kveðjunni: Friður sé með þér.
Þetta fer þannig fram að eftir að nemendur hafa gengið fylktu liði frá Árskóla stilla þeir sér upp á kirkjustígnum, frá kirkju og upp á Nafir, yngstu bekkirnir neðst en þeir elstu efst. Þegar ljóskerið hefur náð til þess efsta, sem staðsettur er hjá krossinum, er kveikt ljós á krossinum og finnst mörgum stundin falleg og jafnvel að hún marki upphaf jólaundirbúningsins.
Nú eru ákveðin tímamót í sögunni því nú hefur nýr kross verið settur upp sem tekur við af þeim gamla sem þjónað hefur hlutverki sínu með sóma þau sextíu ár sem hann hefur staðið vaktina á aðventunni og fram yfir hver áramót síðan.
Frá friðargöngu 2011
Eins og fram kemur í grein Þórhalls Ásmundssonar, sem sjá má HÉR, er langt um liðið síðan gamli krossinn var smíðaður og sagan ansi hreint skemmtileg hvernig hann varð til. En til þess að eiga heimildir um þann nýja var Ingvar Gýgjar Sigurðarson, verkstjóri á þjónustumiðstöð, spurður út í tilurð krossins.
„Eftir að við hjá Eignasjóði vorum komin með ákveðna hugmynd fékk ég Vélaverkstæði KS og Tengil til að hanna og útfæra krossinn. Verkfræðistofan Stoð hannaði undirstöður og Uppsteypa sá um að steypa. Þ. Hansen gróf fyrir þessu og svo náttúrulega mínir starfsmenn af þjónustumiðstöð koma að þessu líka, uppsetningu, undirstöðum og rörum o.fl. Nú og okkar besti maður, Molduxinn Svæk, flutti og hífði það sem þurfti.“
Ingvar segir krossinn vera í sömu hlutföllum og stærð og fyrri kross og í rauninni væri hann uppfærður, endursmíðaður úr rústfríum 100x100 prófíl.
Eins og nærri má geta var gamli krossinn orðinn feyskinn og lúinn og segir Ingvar að margoft hafi þurft að spengja og tjasla í hann síðustu árin. „Í rauninni varð hann ónýtur í aðventustorminum 2019. Við höfum látið hann damla síðan þá en það var ekki hægt lengur.“
Frá friðargöngu 2022
Gamli krossinn var þannig útbúinn að glóðarperur loguðu á einni hlið krossins þangað til sparperur og ledljós tóku yfir. Beindust ljósin að bænum en krossinn myrkvaður á bakhliðinni er snéri í vestur.
Nú er sem sagt öldin önnur því héðan í frá lýsir krossinn bæði í austur og vestur og var hann færður örlítið til, aðeins ofar í brekkuna, til að fólk, sem ekur inn götuna við kirkjugarðinn, sjái þá baklýsinguna einnig. Samkvæmt lýsingum Ingvars var led ljósaborði settur á álspegil inn í krossinum en prófílnum er svo lokað með karbon fíber plasti með álímdri sandblástursfilmu að innan verðu. Þannig næst betri dreifing á lýsingunni.
Aðspurður um það hvort krossinn þoli að standa allan ársins hring segir Ingvar það vera og hið eðlilegasta mál. „Ég legg það til að þessi kross verði ekki tekinn niður heldur látinn standa á sínum stað til frambúðar. Þá væri líka hægt að kveikja á honum við önnur tilefni ef fólki sýnist svo, t.d. í kringum páska. Þá þarf ekki alltaf að vera að reisa hann,“ útskýrir Ingvar og Feykir er alveg sammála og þeim orðum því beint til sveitarstjórnar: Krossinn á sínum stað, alla daga, alltaf!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.