Tónleikar til heiðurs Helenu Eyjólfs í Hofi og Salnum Kópavogi
Króksarinn brottflutti, Hulda Jónasar, hefur verið ötul við að færa landsmönnum gullkorn liðinna ára í formi sönglaga gamalla tíma. Of langt mál er að nefna alla þá tónleika sem hún hefur staðið fyrir en nú er komið að því að heiðra eina ástsælustu söngkonu þjóðarinnar, Helenu Eyjólfsdóttur föstudaginn 21. október í Hofi á Akureyri og laugardaginn 29. október í Salnum Kópavogi.
„Helena hefur staðið á sviðinu í marga áratugi og er fyrir löngu búin að syngja sig inn í hjörtu landsmanna með ógleymanlegum dægurlagaperlum. Á þessum einstöku tónleikum ætlum við að leyfa ykkur að heyra þær og rifa upp bæði í tali og tónum feril Helenu,“ segir Hulda.
Á Wikipediu kemur fram að söngferill Helenu hafi hafist með söng inn á jólaplötu í formi jólakorts (einnig hljómplötu) árið 1954 þegar Helena var aðeins tólf ára gömul: „Næsta plata kom út 1958. Sú plata og lagið Ástarljóðið mitt setti Helenu á lista meðal fremstu dægurlaga söngvara landsins. Helena hefur í gegnum tíðina sungið með ýmsum hljómsveitum, svo sem Neo kvartettinum og Atlantic kvartettinum. Síðar söng hún með Hljómsveit Svavars Gests en lengst af með Hljómsveit Ingimars Eydal og Hljómsveit Finns Eydal sem hún rak um árabil ásamt eiginmanni sínum Finni Eydal (1940 - 1996). Þann 17. júní 2010 var Helena sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar,“ segir í grein Wikipedia.
Hulda segir að Helena hafi orðið 80 ára á þessu ári og fannst henni tilvalið að skella í eina heiðurstónleika fyrir þessa dásamlegu söngkonu sem glatt hefur landsmenn með söng sínum í nærri 70 ár.
„Á tónleikunum ætlum við að rekja feril Helenu bæði í tali og tónum, rifja upp fallegu dægurlagaperlurnar og sögurnar á bak við þær. Valgerður Erlings og Helena sjálf verða á sviðinu allan tímann og spjalla á milli laga um ferilinn og sögurnar á bak við lögin. Hver man ekki eftir lögum eins og Manstu ekki vinur, María Ísabel, Ég tek hundinn, Vaggi þér aldan, Hoppsa bomm, Hvítu mávar og fleiri og fleiri.“
Á tónleikunum leikur sex manna hljómsveit undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar og bakraddasveit undir stjórn Húnvetningsins Hrafnhildar Víglundsdóttur. Hulda segir að fjórar frábærar söngkonur munu síðan stíga á svið og flytja lögin en það eru þær Hrafnhildur Ýr, Hreindís Ylva, Kristjana Arngríms og Sigurlaug Vordís. Þá eru þeir líka í hópnum Ívar Helgason og Grímur Sigurðsson sem söng og lék með Helenu í hljómsveit Ingimars Eydal í fjölda ára og segir Hulda hann engu hafa gleymt.
Helena Eyjólfs, Svanhildur Jakobs og Mjöll Hólm
voru þátttakendur á tónleikunum Út við himinbláu
sundin, sem Hulda Jónasar hélt á síðasta ári.
Nú hefur Helena sungið ansi mörg lög um ævina, hvernig gekk að velja lögin?
„Það gekk bara ljómandi vel við völdum þau í sameiningu ég og Helena og vorum yfirleitt sammála, en hún fékk auðvitað að ráða þessu í lokin og leggja blessun sína yfir þetta enda kann hún þetta.“
Helena verður heiðursgestur tónleikanna og eins og fram kemur hér að framan mega áhorfendur eiga von á því að hún taki lagið.
„Já, svo sannarlega, hún ætlar að taka lagið. Hún og Grímur ætla einnig að rifja upp gamla takta og skella í eina Ingimars Eydal syrpu og svo verður hún auðvita að taka Hvítu mávana fyrir okkur.“
Hljómsveit er skipuð þeim Guðjóni Steini, klarinett og saxófónn; Grími Sigurðssyni, trompet; Sigurði Björnssyni, bassi; Sigga Inga, trommur; Yngva Rafni, gítar og hljómsveitarstjóranum og hljómborðsleikaranum Rögnvaldi Valbergssyni. Í bakröddum syngja þau Ása Svanhildur, Hrafnhildur Ýr og Sigurjón Örn.
Hulda segir það hafa gengið ljómandi vel að koma hljómsveit og flytjendum saman en þau eru búsett bæði fyrir norðan og sunnan. „Við höfum haldið æfingahelgar sunnan heiða og svo hefur fólk æft sig líka bæði heima í stofu og svo í minni hópum,“ útskýrir Hulda sem langar í lokin að hvetja fólk til að koma á þessa einstöku tónleika, hrista af sér haustslenið og svífa með aðstandendum tónleikanna aftur í tímann og hlusta á allar fallegu dægurlagaperlurnar hennar Helenu. „Tilvalið fyrir saumaklúbba, matarklúbba, vinkonur, vini, starfsmannafélög og bara alla. Það er mannbætandi að hlusta á tónlistina hennar Helenu og fallegu sögurnar hennar. Hún er einstök kona.“
Viltu vinna miða?
Í tilefni þessa viðburðar verða tíu miðar í boði Gná tónleikar fyrir heppna lesendur Feykis. Það eina sem þarf að gera er að senda póst á feykir@feykir.is eða bréfleiðis á Feykir Borgarflöt 1, 550 Sauðárkróki. Muna að setja nafn og heimilisfang sendanda og munu fimm heppin fá tvo miða hvert.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.