Það sem heillar mest er dulúðin og fegurðin í ljótleikanum
Nú nýverið kom út ljósmyndabókin Það sem hverfur þar sem eyðibýlum eru gerð skil. Það er Nökkvi Elíasson sem fangar býlin á filmu og úr verður einhver dáleiðandi galdur sem gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn. Bækur Nökkva eru ljóðskreyttar af Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni. Nökkvi, sem er árgangur 1966, er fæddur og uppalinn á Hólmagrundinni á Króknum en býr nú í Reykjavík. Hann er yngstur þriggja bræðra; hinir tveir eru listamaðurinn og skáldið Sigurlaugur og svo Gyrðir sem er nú sennilega óþarfi að kynna nánar.
Eyðibýlaröð þeirra Nökkva og Aðalsteins Ásbergs telur nú fimm bækur og hafa þær komið út á nokkrum tungumálum. Fyrsta bók þeirra félaga, Eyðibýli, kom út 2005 og var gefin út bæði á íslensku og ensku og eru báðar löngu uppseldar. Næsta bók, Hús eru aldrei ein, var tvítyngd á íslensku og ensku. Sú þriðja, Black sky – Vanishing Iceland, var eingöngu á ensku og sú fjórða, Hus med sjel og soge dikt, bara á norsku. Og að lokum er það svo nýja bókin, Það sem hverfur, sem er gefin út tvítyngd á fjórum tungumálum; íslensku og ensku, íslensku og frönsku og íslensku og þýsku. Feykir forvitnaðist um tilurð myndanna og bókanna og sendi Nökkva nokkrar spurningar.
Það er oft mögnuð stemning í myndum af eyðibýlum en það er að sjálfsögðu ekki sama hvernig myndin er tekin. Er einhver galdur við að taka góðar myndir af eyðibýlum og að hverju ert þú að leita við slíkar tökur? „Já, til að fá stemminguna sem ég leita eftir þá skiptir himinn og landslagið í kring gríðarlega miklu máli. Stundum vil ég hafa sól og heiðskýran himin og svo kannski helst rigningu og dökk ský næst. Fer alveg eftir hvernig landslagið er og húsið. Í báðum tilfellum get ég náð mikum áhrifum úr himninum sem er oftast lykilatriði svo að rétt stemming náist. Sjónarhornið er svo líka stórt atriði auðvitað og þá vil ég fanga landslagið með ef það er einhver kostur. Stundum er samt bara nóg að hafa húsið og þungbúinn himin og myndin er klár. Oftast labba ég tvo til þrjá hringi í kringum bæinn, til að finna hvar besta sjónarhornið er, áður en ég tek eina einustu mynd og jafnvel sleppi því alveg ef ég sé ekkert sjónarhorn sem mér líkar. Kem þá kannski bara aftur seinna þegar veðrið hefur breyst og birtan með.“
Gömlu filmurnar vakna aftur til lífsins
Hvernig græjur ertu að nota og vinnur þú myndirnar mikið eftir á? „Upphaflega var allt tekið á svart hvíta filmu og 90% af öllum mínum myndum af eyðibýlum eru teknar þannig og áður fyrr voru þær svo unnar í myrkraherbergi og svo skannaðar inn í tölvu og kláraðar í Photoshop. Í dag tek ég allt á dgital SLR vél frá Nikon og vinn þær í Photoshop þar til ég er sáttur með útkomuna. þarna sleppur maður við nokkra milliliði og mikið vesen. En gallinn er sá að filman hefur oft eitthvað smá extra sem digital myndin hefur ekki og oft erfitt að reyna að apa eftir því í tölvunni þó stundum takist það. Núna sleppi ég alveg myrkraherberginu þó ég sé með filmu, því ég tek einfaldlega mynd af filmunni á digitalvélina með sérstakri tækni og yfirfæri beint í tölvuna til frekari vinnslu. Gömlu filmurnar mínar vakna aftur til lífsins í nýju ljósi ef svo má segja.“
Lærðir þú ljósmyndun eða ertu sjálflærður? „Ég er algerlega sjálflærður og byrjaði um tvítugt að fikta við myndavélar og þá var ekki aftur snúið. Maður sökkti sér auðvitað niður í allar bækur og blöð sem fjölluðu eitthvað um ljósmyndun og gleypti í sig allan þann fróðleika sem þar var í boði. Ég lærði samt mest á að skoða hvað aðrir voru að gera og þá helst verk þeirra sem voru að ryðja veginn á þeim tíma. Enginn sérstakur samt sem heillaði mig meira en annar en íslensku goðin voru RAX, Páll Stefánsson og Einar Falur Ingólfsson. RAX og Einar Falur eru þeir sem studdu líka vel við bakið á mér og hjálpuðu mér mikið að koma út minni fyrstu ljósmyndabók sem heitir einmitt Eyðibýli. þeim er ég ævinlega þakklátur fyrir hjálpina.“
Ferð þú í sérstaka leiðangra til að ná myndum af ákveðnum eyðibýlum eða er þetta hreinlega eitthvað sem grípur augað óvænt þegar þú ferðast um landið? „Já, upphaflega gerði ég það þegar ég samdi við Mál og Menningu varðandi fyrstu bókina mína. þá pakk-aði ég niður myndavélinni og landakortinu og brun-aði af stað á jeppanum mínum. þræddi alla firði og krummaskuð sem ég fann og hægt var að komast að á bílnum. Svo var bara sofið í skottinu og grillaðar pylsur á prímus. Geggjaður tími. Núna fer ég bara ef ég nenni og þá vegna áreiðanlegra ábendinga um skemmtileg hús til að mynda. Ekkert er leiðinlegra en að keyra í óratíma að húsi sem er svo kannski búið að rífa stuttu áður en maður mætti á staðinn.“
Að gera fallega mynd úr ljótu myndefni
Varð þetta concept til fyrir tilviljun eða hafa eyðibýli alltaf heillað þig? „Eiginlega fyrir tilviljun já. Einhvern tíma var ég að skoða filmusafnið mitt og sá að ég átti nokkrar álitlegar myndir sem voru alveg þess virði að gera eitthvað meira úr. Upp úr því spratt áhugi á að gera eitthvað meira og stærra og halda sýningu eða eitthvað slíkt. Það sem heillar auðvitað mest er dulúðin og fegurðin í ljótleikanum. Það er að segja að gera fallega mynd úr ljótu myndefni. þessi yfirgefnu mannvirki eru líka eitthvað svo sorgleg og væntumþykjanleg.“
Ertu forvitinn um sögu húsanna sem þú myndar og kynnir þér jafnvel sögu þeirra? „Nei, í rauninni ekki en samt veltir maður því óneitanlega fyrir sér hvað hafi gerst þarna sem olli því að fólk brá búi. Auðvitað geta verið margar ástæður og oft einfaldlega deyr fólk og enginn kemur í staðinn. Mér finnst samt alltaf nauðsynlegt að vita bæjarnafnið og helst ártalið sem jörðin fór í eyði. Það segir manni svo mikið um hvernig tímans tönn hefur náð að naga húsin niður jafnt og þétt og hvernig sum fara hraðar en önnur.“
Er einhver landshluti sem gefur betur en aðrir til að ná fram stemningu við þessar myndatökur? „Nei, ekki þannig en Austurlandið er alltaf mest í uppáhaldi enda landslagið þar sem bakgrunnur mjög flott í mörgun tilfellum. Fjöllin fyrir austan eru auðvitað einstök og svo gerir Austfjarðaþokan sitt til að ná fram stemmingu ef vel tekst til. Þar er líka aragrúi eyðibýla og myndefnið endalaust. Einnig er ekki eins mikið um að húsin séu rifin, eins og svo gjarnan er víðast hvar á landinu.“
Bras að finna út hvernig myndirnar eiga að vera
Aðalsteinn Ásberg ljóðskreytir myndabækurnar. Hvernig kom það til? „Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson kom til mín á fyrstu sýningunni minni í Ljósmyndasafni Reykjavíkur 2001 og spurði hvort ég hefði áhuga á að taka þetta verkefni lengra í samvinnu með honum og gefa út bók. Auðvitað hafði ég áhuga á því og fyrr en varði vorum við komnir með útgáfusamning við Mál og Menningu um eyðibýla/ljósmyndabók með ljóðum í bland. Þetta samstarf hefur síðan haldið áfram og nú eru bækurnar okkar orðnar fimm talsins í grunninn, ef ekki eru taldar með erlendar útgáfur af þeim upprunalegu. Þetta eru ýmist ljóðskreyttar myndabækur eða myndskreyttar ljóðabækur, fer eftir því hvernig útgefandinn lítur á það. þetta samstarf hefur ratað að hluta út fyrir landsteinana, bæði með köflum í öðrum bókum og svo okkar eigin, sem einungis hefur verið gefin út í viðkomandi landi.“
Undirbýrð þú bækurnar sjálfur fyrir prentun; vinnur myndir og setur upp? „Já, ég vinn alltaf myndirnar mínar sjálfur fyrir prentun enda treysti ég engum nema sjálfum mér til þess. Það getur verið heljarinnar bras að finna út hvernig myndirnar eiga að vera svo þær komi best út í bók. Ekki sama hvaða prentsmiðja á í hlut. Ég hef einnig séð um umbrot á tveimur bókum, Hús eru aldrei ein og Black Sky - Vanishing Iceland. það heppnaðist mjög vel og sennilega það skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina. Ég var með puttana í öllum hinum bókunum og fannst það líka bara fínt. Maður þarf ekki alltaf að gera allt sjálfur.“
Hefurðu orðið fyrir því að taka góða eyðibýlamynd á símann þinn? „Nei, ég passa mig alltaf á að skilja símann eftir þegar ég tek eyðibýlamyndir. Tek ekki einu sinni demo mynd. Nota símann bara til að taka myndir af fjölskyldunni og vinum. Mér finnst gæðin í símunum langt á eftir alvöru myndavélum og ekki neitt spennandi tæki satt best að segja. En ég er líka soddann forneðla,“ segir Nökkvi að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.