Það reyndist erfitt að halda sterkum hópi í vetur
„Ekki okkar besta frammistaða og hefði mátt vera mikið betri. En svona er boltinn, maður vinnur og tapar, áfram gakk,“ segir Eva Rún Dagsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Tindastóls í körfunni, aðspurð um frammistöðu Stólastúlkna í vetur, en árangur liðsins í 1. deildinni var ekki á pari við væntingar.
Liðið hafnaði í næstneðsta sæti deildarinnar, fékk tíu stig í 24 leikjum, en batamerki voru á leik liðsins eftir áramót þegar skipt var um áherslur og nýr Kani fenginn til liðsins. „Við getum ekki gert betur en okkar besta.“ segir Eva Rún. „Það er erfitt að halda uppi kvennaliði í litlum bæ úti á landi þar sem maður fær ekki mikið af íslenskum stelpum til að koma hingað og flestarheimastúlknanna fara á einhverjum tímapunkti að sinna öðrum verkefnum annars staðar. Kvennaboltinn er allt öðruvísi en karlaboltinn. Það reyndist okkur erfitt að fylla í liðið og halda sterkum hópi í vetur. Við vorum oft ekki fleiri en níu á æfingum og stundum að mæta aðeins átta í leiki. Það er ekki boðlegt fyrir meistaraflokkslið. Við tökum tímabilið með okkur í reynslubankann, lærum af mistökum og höldum áfram að bæta okkur sem leikmenn. Það gerir ekkert gagn að svekkja sig neitt.“
Var eitthvað sem kom þér á óvart í vetur? „Það sem kom mér aðalega á óvart var að við unnum ekki fleiri leiki. Við eigum roð í öll þessi lið eins og við sýndum þegar við unnum Snæfell nú á dögunum, eitt sterkasta liðið, og svo Aþenu. Þetta er svo jöfn deild og við hefðum mátt vinna fleiri leiki. Við vorum sjaldnast langt frá því, það vantaði alltaf bara eitthvað smá uppá. En eins og ég segi þá er ekkert í stöðunni nema bera höfuðið hátt og halda áfram. Við erum því miður komnar í frí en bíðum spenntar eftir að horfa á strákana okkar fara alla leið í úrslitakeppninni,“ segir Eva Rún að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.