Það má reikna með hvítum jólum
Aðdáendur hvítra jóla virðast ætla að fá sína ósk uppfyllta þessi jólin því Veðurstofan gerir ráð fyrir frosti, funa og dassi af éljum fram yfir jólahelgina. Eftir hreint ansi snjóléttan vetur þá hristi veturkonungur nokkur snjókorn fram úr erminni í gærkvöldi og er enn að. Reikna má með snjókomu híst og her á Norðurlandi vestra í dag en öll él styttir upp um síðir og það dregur úr þeim með kvöldinu.
Það bætir í vind í nótt og í fyrramálið en gert er ráð fyrir að veður verði með ágætum þegar líður að hádegi á morgun. Það er því mestmegnis reiknað með stilltu en köldu veðri á morgun og á laugardag en það gæti orðið nokkuð hvassviðri á annesjum (á Ströndum, Skaga og yst á Tröllaskaga.
Sjá má á korti Vegagerðarinnar yfir færð að víðast hvar er snjókoma eða éljagangur á svæðinu. Ýmist er snjóþekja á vegum eða hálka. Það eru því allir vegir færir sem vanalega eru opnir á þessum árstíma en víssara að fara að öllu með gát og kynna sér færð áður en lagt er í langferðir. Hægt er að fá upplýsingar um færð hjá Vegagerðinni í síma 1777 eða á umferdin.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.