Það er nauðsyn að eiga a.m.k. eina góða íslenska lopapeysu og góða ullarsokka
Álfhildur Leifsdóttir frá Keldudal, býr á Sauðárkróki og er kennari við Árskóla ásamt því að vera sveitarstjórnarfulltrúi. Það mætti segja að hún sé prjónasjúk, henni er eiginlega ekki rótt nema hún eigi garn í næsta verkefni þó nokkur séu mismunandi verkefnin á prjónum nú þegar. Síðastliðið ár gaf margar prjónastundir vegna Covid og til gamans hélt hún betur en áður um afrakstur prjónaársins. Það urðu til 66 flíkur af öllum stærðum og gerðum og í þær fóru tæplega 17 kílómetrar af garni.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?
Ég var frekar afkastamikil í hannyrðum í grunnskólanum í Rípurhreppi í gamla daga þar sem Salla frá Eyhildarholti hafði endalausa þolinmæði fyrir að kenna okkur bæði útsaum, hekl og prjón. Svo reyndi Bíbí að kenna mér á saumavél þegar ég kom í Gaggann á Króknum en ég hef alltaf verið afspyrnuhrædd við slík tæki og læt slíkt alveg í friði. Eftir grunnskóla lét ég hannyrðir eiga sig lengi vel eða þangað til ég eignaðist eldri börnin mín, þá vaknaði áhuginn aftur og hefur ekki dofnað síðan. Það er virkilega gaman að áhuginn hefur smitast í yngstu dóttur mína sem var farin að prjóna um fimm ára aldur. Hún fer ekki eftir uppskriftum heldur leikur þetta af fingrum fram með skemmtilegum útkomum. Það er yfirleitt dýrt en líka gaman að fara með henni í hannyrðabúðir þar sem hún velur garn í flíkur á sig, ýmist fyrir mig eða hana að prjóna úr. En hún er afskaplega dugleg að ganga í heimaprjóni sem mér leiðist nú ekki.
Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust?
Mér þykir lang skemmtilegast að prjóna. Það er mikil slökun í að prjóna því þá get ég setið kyrr en samt verið að gera eitthvað, en ég á frekar erfitt með að vera aðgerðalaus. Að prjóna er líka góð leið til að kúpla sig aðeins út úr áreiti og koma skipulagi á hugsanir og hugmyndir eftir annasama daga. Það eru endalausir möguleikar í prjóninu og alltaf gaman að prufa mismunandi garn og setja saman mismunandi liti. Ég enda þó oftast aftur í íslensku ullinni, hún hentar kuldaskræfu eins og mér afskaplega vel.
Hverju ertu að vinna að þessar mundir?
Ég er talsvert að prjóna ungbarnaföt, það er svo gott að eiga eitthvað fallegt í gjafaskúffunni þegar nýtt líf kviknar í kringum mann. Svo hef ég verið þó nokkuð í að prjóna peysur á sjálfa mig, en ég tók ákvörðun um að kaupa helst ekki fjöldaframleiddar peysur á mig heldur prjóna þær sjálf úr góðu garni. Annars finnst mér nauðsynlegt að vera með lágmark 2-3 verkefni í gangi í einu. Eitt frekar krefjandi en önnur þá svona þægileg til t.d fjarfundaprjóns, en talsvert var nú gert af því að prjóna yfir fjarfundum í Covid.
Hvar færðu hugmyndir að verkum?
Ég fylgi mörgum prjónurum á Instagram og sé oft þar eitthvað fallegt sem ég verð að koma á prjónana. Ravelry, Instagram og aðrir samfélagsmiðlar eru hafsjór af fallegum hugmyndum og alltaf auðvelt að leita ráða á þeim vettvangi ef mann rekur í strand.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með?
Ég hannaði eigin hestamynstur og svo í kjölfarið hef ég hannað bæði lopapeysur, ullarsokka og lopahúfur með því mynstri. Þessar flíkur hafa flogið vítt um heim og eru líka til sölu í Alþýðulist. Það er eitthvað spes við að koma saman eigin hönnun og svo er ánægjan einstök við að sjá aðra klæðast flíkunum.
Eitthvað sem þú vilt bæta við?
Ég hvet alla til að kíkja í Alþýðulist í Varmahlíð þar sem úrval af fallegu handverki er virkilega gott og á góðu verði. Eins eru bæði Sigrún á Stórhóli og Pálína á Gili með mjög fallegt handverk til sölu. Það er mikil gróska í handverki hér í firðinum og gaman að þeir sem handverkið skapa eru á öllum aldri og af öllum kynjum. Það er nauðsyn að eiga a.m.k. eina góða íslenska lopapeysu og góða ullarsokka, ef maður er ekki sjálfur sleipur á prjónunum þá er um að gera að njóta prjónasnilli annarra og kíkja á þessa staði.
Áður birst í tbl. 23 Feykis 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.