Stormur og samgöngutruflanir á Norðurlandi

Sunnan hvassviðri eða stormur er á norðanverðu landinu enda gular viðvaranir  í gildi frá Veðurstofunni. Einnig er útlit fyrir talsverða rigningu sunnan- og vestan til. Búast má við samgöngutruflunum.

Í athugasemd veðurfræðings á heimasíðu Veðurstofunnar kemur fram að vegna mikillar kuldatíðar síðustu vikur séu margar ár á landinu að miklu leyti ísilagðar. Í Hvítá í Árnessýslu og Ölfusá er ís þykkur á köflum þrátt fyrir leysingar síðustu daga. „Í dag er spáð suðlægum áttum 10-15 m/s og útlit fyrir talsverða rigningu sunnan- og vestanlands, hiti 3 til 8 stig. Auknu afrennsli ásamt leysingum er spáð á sunnan og vestanverðu landinu og líkur hafa aukist á að ár ryðji sig.“

Hætta á krapastíflumyndun eykst í leysingum

Á vef Vegagerðarinnar er athygli vakin á því að gular vindaviðvaranir Veðurstofu Íslands séu í gildi í dag um landið norðan og vestanvert með hálku á fjallvegum nyrðra. Vegir mikið til greiðfærir um landið sunnanvert.

Búast má við samgöngutruflunum en á Norðurlandi er hálka á helstu leiðum og eitthvað um skafrenning og þó nokkuð af hálkublettum á útvegum.
Vegfarendur Siglufjarðarvegar eru beðnir um að sýna aðgát vegna hættu á grjóthruni í umhleypingum næstu daga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir