Stefnt að framkvæmdum vegna myglu í sumar
Mygla var staðfest í úttekt EFLU á aðalbyggingu Háskólans á Hólum sumarið 2019 en lítið sem ekkert var aðhafst næstu tvö árin þar á eftir. Fram kemur í frétt RÚV af málinu að nú horfi til betri vegar og farið verði í framkvæmdir í sumar. „Málið er komið frá ráðuneyti til framkvæmdarsýslunnar sem er búin að gera samning við tvær verkfræðistofur sem eru að vinna útboðsgögn til þess að bjóða út verkið sem við kemur viðgerðum,“ er haft eftir Hólmfríði Sveinsdóttur, rektors háskólans.
Myglan hefur nú orðið til þess að fjórða hæð aðalbyggingarinnar, auk norðurveggjar og þaks, er ónýt.
„Myglan á fjórðu hæðinni hefur haft mjög víðtæk áhrif en sérstaklega á starfsfólk ferðamáladeildar þar sem þeirra vinnuaðstaða hefur verið á þessari hæð og ég get eiginlega fullyrt að deildin er án húsnæðis þannig að starfsmenn hafa þurft að vinna algjörlega heima,“ segir Hólmfríður sem bætir við að einstaklingar, og þá sérstaklega þeir sem voru við vinnu á fjórðu hæð byggingarinnar, hafi kvartað undan einkennum sem má tengja við myglu.
Heimild: RÚV.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.