Staða sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Skagafjarðar auglýst á ný
Staða sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Skagafjarðar hefur verið auglýst að nýju en staðan var fyrst auglýst um miðjan janúar sl. Alls bárust sjö umsóknir um stöðuna en tveir umsækjanda drógu umsókn til baka eftir að viðtöl hófust. Enginn umsækjenda sem eftir stóðu uppfylltu nægilega vel þær kröfur sem gerðar voru um menntun og reynslu til stöðu sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs.
Í fundargerð byggðarráðs frá því 28. febrúar kemur fram að staðan verði því auglýst á ný og þá lögð ríkari áhersla á bæði menntun og reynslu á sviði lögfræði.
Byggðarráð samþykkti samhljóða að leggja til við sveitarstjórn að staða sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs verði auglýst laus til umsóknar að nýju sem hefur nú verið gert.
Sviðsstjóri heyrir beint undir sveitarstjóra og er staðgengill hans. Um er að ræða 100% starf og æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Umsóknarfrestur er til 15. apríl 2024.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.