Smábátasjómenn vilja takmarka dragnótaveiðar á Skagafirði
feykir.is
Skagafjörður
14.09.2022
kl. 08.31
Á aðalfundi Drangeyjar- smábátafélags Skagafjarðar, sem haldinn var 11. september voru samþykktar ályktanir þar sem stjórnvöld eru brýnd til framfaramála fyrir smábátasjómenn í Skagafirði og víðar. Telur félagið m.a. ljóst að vísindalegar forsendur veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, t.d. í þorski, grásleppu og fleiri tegundum, hafa engan veginn staðist og skýringar stofnunarinnar ótrúverðugar og án viðunandi rökstuðnings.
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum:
- Aðalfundur Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar ítrekar með vísan til fyrri samþykkta félagsins og sveitarstjórnar Skagafjarðar kröfu um að dragnótaveiðar á Skagafirði verði nú þegar takmarkaðar í samræmi við fyrra fyrirkomulag veiðanna á firðinum, þ.e. að svæðinu innan línu úr Ásnefi í vestri í Þórðarhöfða/Kögur í austri verði lokað fyrir veiðum með dragnót.
- Aðalfundur Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar mótmælir harðlega stöðvun strandveiða 21. júlí 2022. Skorar félagið á stjórnvöld að tryggja með lögum að þessar veiðar verði undanbragðalaust leyfðar í 12 veiðidaga á mánuði í fjóra valkvæða mánuði á tímabilinu frá apríl til september.
- Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar leggur til að byggðakvóta verði einungis úthlutað til dagróðrabáta sem eru minni en 30 brt. Þá verði allt að 10 tonn eyrnamerkt til þeirra útgerða sem átt hafa heimilisfesti í byggðarlaginu a.m.k. þrjú síðastliðin ár. Loks verði aldrei meira en 20% af byggðakvóta á Sauðárkróki úthlutað til hvers útgerðarfyrirtækis.
- Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar telur ljóst að vísindalegar forsendur veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, t.d. í þorski, grásleppu og fleiri tegundum hafa engan veginn staðist og skýringar stofnunarinnar ótrúverðugar og án viðunandi rökstuðnings. Skorar félagið á Alþingi að beita sér sem fyrir því að úttekt verði gerð á stofnstærðarmati og veiðiráðgjöf stofnunarinnar.
- Aðalfundur Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar skorar á stjórnvöld að endurskoða heimildir til veiða með dragnót upp í fjörur víða um land. Þá mótmælir fundurinn öllum hugmyndum um auknar togveiðar nær landi en nú er.
- Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélag Skagafjarðar krefst þess að flotvörpuveiðum á Íslandsmiðum verði tafarlaust hætt enda kemur mikið af grásleppuseiðum og öðrum fisktegundum í veiðarfærið sem meðafli.
- Með vísan til minni losunar kolefnis, leggur aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar til að heimilt verði að veiða allt að 1.548 kg af ósl. þorski í einni strandveiðiferð enda fari hún ekki yfir 28 klst. og teljist þá tveir veiðidagar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.