Sláttur hófst um helgina eftir stórundarlega tíð
Sláttur hófst í Skagafirði um síðastliðna helgi eftir langa bið. Veðurfarið hefur ekki verið bændum hagstætt þetta árið og þegar Feykir skoðaði hvenær sláttur hefur hafist undanfarin ár þá fundust ekki dæmi um að sláttur hæfist svona seint. Þó er ljóst að ekki er um met að ræða. Feykir hafði samband við Guðrúnu Kristínu og Valdimar á Sólheimum í Sæmundarhlíð en þau náðu að slá u.þ.b. fjóra hektara sl. helgi.
Samkvæmt veðurspánni átti ekki að vera mikill þurrkur og það gras sem var komið var ekki mikið. Sprettan um helgina var aftur á móti góð því verðið var gott og því hægt að halda áfram að slá eftir að rigningin hætti.
„Við vorum vel birgð af heyi enda erum við bara með kúabúskap og nokkra hesta og það er yfirleitt sama magn af heyi sem fer í þau dýr ár eftir ár,“ segir Guðrún þegar Feykir spyr hvort þær birgðir sem þau áttu hafi verið búnar fyrir sláttinn. Margir bændur í Skagafirði voru ekki í góðum málum hvað heybirgðir varðar þar sem sláttur gat ekki hafist fyrr – eða þremur til fjórum vikum síðar en í fyrrasumar.
Munið þið eftir öðru eins vori eins og í ár þar sem sláttur gat ekki hafist fyrr en um mánaðamótin júní-júlí? „Já, eftir mjög kalt og þurrt vor árið 2011 byrjuðum við slátt 3. júlí en tengdaforeldrar mínir byrjuðu að heyja hér í Sólheimum 18. júlí árið 1979 – en það ár kom víst aldrei sumar," segir Guðrún.
Feykir óskar öllum bændum góðs gengis í sumarslættinum og vonar að það verði hægt að slá eitthvað fram á haustið svo bændur lendi ekki í heyskorti næsta vetur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.