Skorað á matvælaráðherra að falla frá skerðingu strandveiðikvóta

Drangey-smábátafélag Skagafjarðar skorar á matvælaráðherra að falla frá fyrirætlan sinni um skerðingu á heildarafla til strandveiða á komandi sumri og beinir því til allra stjórnmálaflokka á Alþingi að sameinast um að festa 48 veiðidaga á sumri í sessi.

Telur félagið að sú stefna sem mótuð var fyrir fjórum árum um að heimila strandveiðar í tólf daga á mánuði, alls 48 daga á sumri hafi, þrátt fyrir frávik á síðustu tveimur árum, reynst afar skynsamleg með tilliti til hagvæmni, öryggis við veiðarnar og jafnræðis milli landshluta.

„Drangey beinir því til allra stjórnmálaflokka á Alþingi að sameinast um að festa slíkt fyrirkomulag í sessi með lagasetningu enda strandveiðar mikilægt atvinnu- og byggðamál eins og margoft hefur komið fram,“ segir í ályktun Drangeyjar sem samþykkt var í gær.

Rímar þessi ályktun við bókun byggðarráðs Svf. Skagafjarðar sem skorar einnig á Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að endurskoða ákvörðun sína. Telur ráðið að sú stefna sem mótuð var fyrir fjórum árum um að heimila strandveiðar í tólf daga á mánuði, alls 48 daga á sumri hafi reynst afar skynsamleg. „Þannig náðist hvoru tveggja; að eyða hættulegum keppnisþætti veiðanna og að tryggja að mestu jafnræði milli veiðisvæða allt í kringum landið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir