Skemmtikraftar og skaðræðisgripur í Gránu á sunnudaginn
Sunnudaginn 20. nóvember verður viðburður í Gránu á Sauðárkróki. Þá ætlar þjóðfræðingurinn og Strandamaðurinn Jón Jónsson að ræða um förufólk fyrri alda og segja af því sögur. Hann veltir meðal annars fyrir sér landlægum áhuga á sögum af sérkennilegu fólki og rifjar upp fjölmargar sögur. Frítt er inn á viðburðinn sem hefst kl. 14:00.
Jón Jónsson þjóðfræðingur
Förufólk og flakkarar settu svip á mannlífið í sveitum landsins fyrr á öldum. Þetta var fjölbreyttur og umtalaður hópur sem bændur skutu skjólshúsi yfir næturlangt. Sum reyndu að gera gagn, unnu einhver ákveðin verk og mörg báru fréttir milli bæja. Einstaka flakkari var meira að segja með tilbúið skemmtiatriði í farteskinu. Aðrir gáfu lítið af sér og voru jafnvel varasamir. Jón Jónsson hefur rannsakað þennan hóp förufólks á landsvísu og sögurnar sem sagðar voru um það. Margar þeirra eru magnaðar og hafa jafnvel yfir sér yfirnáttúrulegan blæ. Árið 2018 kom út bók um efnið eftir Jón í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar og ber hún titilinn: Á mörkum mennskunnar: Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.