Skellur þegar Stólastúlkur lutu í gras gegn Stjörnunni í Lengjubikarnum

Það fór betur fyrir tæpu ári þegar lið Tindastóls tók á móti Stjörnunni í Lengjubikarnum í mars 2022 í hríðinni á Króknum. Lokatölur urðu 3-2. MYND: ÓAB
Það fór betur fyrir tæpu ári þegar lið Tindastóls tók á móti Stjörnunni í Lengjubikarnum í mars 2022 í hríðinni á Króknum. Lokatölur urðu 3-2. MYND: ÓAB

Það voru ekki jafn ánægjuleg úrslit í dag hjá Stólastúlkum í tuðrusparkinu og í körfuboltanum. Fótboltastelpurnar okkar mættu liði Stjörnunnar í Miðgarði í Garðabæ í Lengjubikarnum en Garðbæingar enduðu í öðru sæti Bestu deildarinnar síðasta sumar og ætla sér örugglega að bæta þann árangur. Kristján Guðmunds og félagar hafa m.a. bætt Gunnhildu Yrsu landsliðskonu í sinn hóp. Andstæðingar Stólastúlkna í dag voru því feikisterkir og lokatölur 6-0.

Aníta Ýr gerði fyrsta mark leiksins á 7. mínútu og Alma Mathiesen bætti við öðru marki á þeirri 13. Mínútu síðar hafði Magga gert sjálfsmark og staðan því 3-0 eftir kortersleik. Þannig stóð í hálfleik og á 50. mínútu bætti Alma við marki og Aníta gerði fimmta markið á 59. mínútu. Arna Dís gerði síðasta mark leiksins á 75. mínútu.

Þeir hafa nú oft á tíðum verið nokkuð strembnir fyrstu leikir Tindastóls á undirbúningstímabilinu þegar nýir leikmenn hafa jafnvel verið að koma saman í fyrsta sinn og erlendir leikmenn nýlentir á klakanum. Hannah, Melissa og Murr voru mættar í slaginn að utan og Laufey Harpa, Rakel og Lara, sem urðu Stólastúlkur að nýju nú í lok vikunnar, voru einnig mættar í Miðgarð og beint í byrjunarliðið. Þá voru Bryndís, María Dögg, Hugrún, Aldís María og Magga markvörður í byrjunarliðinu. Gwen var á bekknum en kom ekki við sögu í leiknum.

Næsti leikur Tindastóls á að fara fram á Sauðárkróksvelli 25. febrúar en þá mætir lið Breiðabliks á gervigrasið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir