Sírenuvæl og ljósagangur í tilefni 112 dagsins

Björgunarsveit, slökkvilið og lögregla kveiktu á ljósum og sírenum tækja sinna við mikla lukku krakkana í Ársölum á Sauðárkróki. Myndir: PF.
Björgunarsveit, slökkvilið og lögregla kveiktu á ljósum og sírenum tækja sinna við mikla lukku krakkana í Ársölum á Sauðárkróki. Myndir: PF.

112 dagurinn er haldinn hátíðlegur 11. febrúar ár hvert til að minna á neyðarnúmer allra landsmanna eins og segir á heimasíðu Neyðarlínunnar 112.is. Að þessu sinni er áhersla lögð á að vinna gegn hvers konar ofbeldi, en ofbeldishegðun hefur farið vaxandi þau tvö ár sem Covidfaraldurinn hefur geisað.

Á Sauðárkróki fóru viðbragðsaðilar fylktu liði um götur og heimsóttu leikskóla bæjarins þar sem litskrúðugum tækjum var stillt upp með litskrúðugum ljósum og einstaka sírenuvæli. „Við spjölluðum við krakkana, kveiktum á ljósum og sírenum við mikla lukku viðstaddra. Það var mjög gaman að sjá gleðina á andlitum krakkanna og efla jákvæða ímynd þeirra á viðbragðsaðilum enn frekar,“ segir Hafdís Einarsdóttir, formaður Björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveit en ásamt fulltrúum hennar voru mætti fulltrúar slökkviliðsins og lögreglu.

Hafdís segir að sá öflugi hópur viðbragðsaðila sem starfa í Skagafirði vera lykilatriði fyrir öryggi íbúanna og eftir því sem samstarf þeirra er meira því skilvirkara og betra verður það.

Í tilefni dagsins miðlaði Neyðarlínan fræðsluefni á gagnvirku myndbandi um rétt og skilvirk samskipti við neyðarverði sem eru þeir sem svara í símann þegar hringt er í neyðarnúmerið 112 og þess vegna mikilvægustu hlekkirnir í viðbragðinu. Horfa má á myndbandið með því að smella HÉR sem beinir inn á síðu 112.is. Einnig er þar hægt að horfa á dagskrá Neyðarlínunnar sem fram fór rafrænt í hádeginu í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir