Síðustu þrír leikir tímabilsins reyndust Stólastúlkum engin happaþrenna
Kvennalið Tindastóls í körfunni kláraði tímabilið í vetur með því að spila þrjá leiki á einni viku og því miður töpuðust þeir allir. Það kom kannski ekki á óvart að liðið tapaði gegn toppliði Stjörnunnar og sterku liði KR en í fyrsta leik þessarar þrennu mættu Stólastúlkur liði Ármanns í leik sem átti að vera séns á að taka. Þá var hins vegar Jayla Johnson í leikbanni og gestirnir unnu öruggan sigur.
Tindastóll – Ármann 52-81
Lið Ármanns náði strax undirtökunum í leiknum og náði að stinga Stólastúlkur af í öðrum leikhluta. Þær leiddu með 25 stigum í hálfleik, 21-46, og bættu örlítið við forystuna í síðari hálfleik og unnu leikinn 52-81. Emese Vida var stigahæst í liði Tindastóls með 14 stig og hún hirti 15 fráköst. Klara Sólveig var með ellefu stig og Eva Rún átta stig og tíu stoðsendingar. Þá skilaði Inga Sólveig sjö stigum og átta fráköstum.
Tindastóll – Stjarnan 77-87
Jayla var mætt til leiks á ný þegar topplið Stjörnunnar kom í heimsókn í Síkið. Garðbæingar náðu góðu forskoti strax í fyrsta leikhluta og leiddu með þrettán stigum að fyrsta leikhluta loknum, 15-28. Annar og þriðji leikhlutar reyndust jafnari en átján stigum munaði að loknum þriðja leikhluta. Staðan þá 53-71 en í síðasta leikhlutanum náðu Stólastúlkur aðeins að rétta sinn hlut en niðurstaðan tíu stiga sigur toppliðsins, lokatölur 77-87. Jayla skilaði 32 stigum og tólf fráköstum í leiknum og Emese Vida 14 stigum og 16 fráköstum. Eva Rún gerði ellefu stig, tók tólf fráköst og átti sex stoðsendingar.
KR – Tindastóll 81-73
Lokaleikur Tindastóls þennan veturinn fór fram á Meistaravöllum Vesturbæinga og mótherjinn því lið KR. Leikurinn var ansi sveiflukenndur, tveir leikhlutar jafnir en hinir tveir ójafnir. Heimastúlkur komust í 10-4 en lið Tindastóls kom sér vel inn í leikinn og staðan að loknum fyrsta leikhluta 16-17 fyrir gestina. Stólastúlkur leiddu, 26-30, þegar þrjármínútur voru liðnar af öðrum leikhluta en þá gerði lið KR nítján stig í röð og breytti stöðunni í 45-30. Staðan var 53-35 í hálfleik. Lið Tindastóls svaraði ágætlega fyrir sig í þriðja leikhluta og hafði minnkað muninn í sex stig, 53-47, eftir að hafa gert tólf fyrstu stig síðari hálfleiks. Munurinn var síðan sex til tíu stig út þriðja leikhluta en að honum loknum var staðan 63-56. Heimaliðið hélt svo lengstum rúmlega tíu stiga forystu í lokaleikhlutanum en lið Tindastóls gerði sex síðustu stig leiksins og átta stigum munaði að lokum.
Emese Vida var best í liði Tindastóls, gerði 21 stig og tók 14 fráköst en Jayla Johnson var með 27 stig og sjö fráköst. Eva fyrirliði var með tíu stig og tíu stoðsendingar í leiknum og Klara Sólveig gerði átta stig og Inga Sólveig sex með tveimur þristum.
Áttunda sætið varð raunin
Niðurstaða vetrarins er því sú að lið Tindastóls vann fimm af 24 leikjum og endaði í áttunda sæti deildarinnar, aðeins b-lið Breiðabliks var neðar en Blikastúlkur töpuðu öllum sínum leikjum. Þetta var að sjálfsögðu ekki árangurinn sem stefnt var að í vetur og augljóslega vantaði eitt stórt púsl í liðið; miðað við mannskapinn í vetur hefði þurft þriðja útlendinginn til að gera andstæðingum erfiðara fyrir í að loka á styrkleika liðsins. En þetta hefur eflaust verið lærdómsríkur vetur fyrir stelpurnar og nú er bara að mæta enn ákveðnari til leiks að hausti. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.