Seljum mjög mikið af grillinu, segir vertinn í Víðigerði

Rakel María Eggertsdóttir og Kristinn Bjarnason ásamt Úlfi Leó. Aðsendar myndir.
Rakel María Eggertsdóttir og Kristinn Bjarnason ásamt Úlfi Leó. Aðsendar myndir.

Feykir sagði frá því fyrir stuttu að útidyrahurðin á North West Hotel & Restaurant í Víðigerði í Húnaþingi vestra hefði sprungið upp í óveðri 7. febrúar sl. og veitingasalurinn fyllst af snjó. Til stóð að opna veitingastaðinn síðdegis sama dag eftir nokkurra vikna lokun en að vel heppnuðum hreinsunarstörfum loknum náðist að það daginn eftir.

„Já, það sprakk upp útidyrahurðin að framan í óveðrinu um nóttina. Sem betur fer var fólk á vappi sem varð vart við þetta og reyndi eins og það gat að loka hurðinni aftur án árangurs og Björgunarsveitin Húnar kom og aðstoðaði á endanum.

Um leið og veðrið skánaði byrjuðum við að moka snjónum út og þurrka staðinn og fengum aðstoð frá góðum grönnum við það. Við teljum að ekki hafi orðið mikið tjón en það á aðeins eftir að koma í ljós hvort tölvur, kælar og fleira sem blotnaði verði til friðs.

Við höfum verið að glíma við rafmagnstruflanir eftir þetta sem er verið að greina. Til stóð að opna aftur eftir nokkurra vikna vetrarlokun og vorum við búin að vera að gera klárt fyrir það dagana á undan. Við opnuðum svo degi seinna og það gekk bara fínt,“ segir Kristinn Bjarnason, eigandi North West.

Fjölskylda Kristins keypti staðinn og flutti um mitt ár 2012 og hefur byggt upp reksturinn síðan þá. „Stjúppabbi minn, Hallgrímur, lést á síðasta ári og í dag erum það ég og mamma mín, Guðlaug, sem rekum staðinn. Við leggjum mikinn metnað í að vera með góðan mat og það hefur verið að skila sér,“ segir hann aðspurður um aðkomu hans að North West Hotel & Restaurant.

Býst við góðu sumri

Kristinn segir að reksturinn hafi gengið ágætlega þrátt fyrir Covid-ástand sl. tvö ár og gríðarlega fækkun erlendra ferðamanna og þakkar ferðaþyrstum Íslendingum. „Við sluppum bara furðuvel í gegnum Covid ástandið. Það hjálpaði rosalega hvað Íslendingar voru duglegir að ferðast bæði sumrin, það svona bjargaði árinu.“

Hann segir rekstur North West Hotel & Restaurant breytilegan milli árstíða en alls starfa sex til sjö manns við staðinn yfir vetrarmánuðina en fjölgar í 15-20 á sumrin. Kristinn er bjartsýnn á komandi tíma og segist búast við góðu sumri og spenntur að losna úr klóm veirunnar og bjóða fólki upp á ýmislegt girnilegt í svanginn.

„Við bjóðum upp á ýmislegt en seljum mjög mikið af grillinu, hamborgara, kjúklingabringur, djúpsteiktan þorsk og lambakótilettur og oft einhverja sérrétti á kvöldin. Kjötsúpan er alltaf vinsæl og svo erum við með brauðstangir sem eru alveg furðu vinsælar. Ég held að það séu ekki margir grillstaðir sem selja brauðstangir. Þetta var einhver skrýtin hugmynd sem við fengum og svo var bara no way back.“

Til að mæta vaxandi viðkomu vegfarenda um þjóðveg eitt í Húnaþingi í framtíðinni segir Kristinn að bílastæðin verði stækkuð fyrir næsta sumar og stefnt á að vera með betra útisvæði með borðum þegar sólin skín.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir