Samningur um byggingu nýs verknámshúss FNV undirritaður
Nú í dag var undirritaður samningur um byggingu nýs verknámshúss við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Undirritunin fór fram í verknámshúsi Fjölbrautaskólans að viðstöddu margmenni þ.á.m. nemendum, starfsfólki skólans og fulltrúum úr atvinnulífinu. Samningurinn gerir ráð fyrir stækkun verknámshúss um allt að 1.400 fermetra.
Kostnaðarskipting á milli ríkis og sveitarfélaga er á þann veg að ríkið greiðir 60% kostnaðar en sveitarfélögin 40%. Vinna við frummatsskýrslu fyrir bygginguna stendur yfir, en að henni lokinni hefst undirbúningur fyrir hönnunarvinnu og útboð.
Fyrirhuguð stækkun verknámshússins er langþráð í ljósi mikillar fjölgunar iðn- og starfsnámsnemenda við skólann. Nú er svo komið að á annað hundrað nemenda stundar helgarnám við skólann í húsasmíði, rafvirkjun, bifvélavirkjun og kvikmyndagerð. Þetta þýðir að húsnæðið er nýtt alla daga vikunnar. Þá hefur hlutfall iðn- og starfsnámsnema farið yfir helming nemendafjöldans frá haustinu 2021.
Nemendum FNV hefur fjölgað úr 400 í 700 á tólf árum
Það voru Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Ólafur Þór Ólafsson, starfandi sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagastrandar, Erla Jónsdóttir, oddviti Skagabyggðar, Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti Húnaþings vestra og Ingileif Oddsdóttir, skólameistari FNV, sem undirrituðu samninginn. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir átti þess ekki kost að vera viðstödd athöfnina.
Ásmundur Einar þakkaði við undirritunina sveitarstjórnarfólki, atvinnulífinu og skólanefnd fyrir þeirra framlag og minnti á mikilvægi skólans fyrir Norðurland vestra.
Þá flutti Ingileif Oddsdóttir skólameistari og gerði grein fyrir nánu samstarfi skólans við atvinnulífið og sveitarfélögin á Norðurlandi vestra. Þá greindi hún frá því að fjölgun nemenda úr 400 árið 2011 í rúmlega 700 hafi fyrst og fremst verið í iðn- og starfsnámi.
Heimild: FNV.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.