Skagfirðingar sameinaðir
Íbúar Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykktu í dag sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags verður kjörin 14. maí næstkomandi og tekur sameinað sveitarfélag gildi 15 dögum síðar. Yfirgnæfandi meirihluti var fyrir sameiningunni í Sveitarfélaginu Skagafirði en mjórra var á munum í Akrahreppi þó sameiningin hafi engu að síður verið samþykkt með um 65% atkvæða.
Í Akrahreppi var tillagan samþykkt með 84 atkvæðum gegn 51 en í Sveitarfélaginu Skagafirði sögðu 961 já en 54 nei. Auðir og ógildir voru sjö. Kjörsókn í Svf. Skagafirði var 35,5% en alls greiddu 1.022 atkvæði af þeim 2.961 sem voru á kjörskrá.
Niðurstöður eru birtar með fyrirvara um lokaskil kjörstjórna til Hagstofu. Fyrr í kvöld var greint frá því að íbúar í Húnavatnshreppi og Blönduósi hefðu samþykkt sameiningu sveitarfélaganna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.