Rósanna og Viðar nýir eigendur Hlín Guesthouse Steinsstöðum

Kátir eigendur Hlín Guesthouse. Aðsend mynd.
Kátir eigendur Hlín Guesthouse. Aðsend mynd.

Eigendaskipti hafa orðið hjá Hlín Guesthouse, sem staðsett er í Steinsstaðahverfi í fyrrum Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, eftir að Rósanna Valdimarsdóttir og Viðar Ágústsson festu nýlega kaup á eigninni. Opið hús verður á laugardag og fólk velkomið að skoða og njóta dagsins með nýjum eigendum.

„Þetta er stórt verkefni fyrir okkur en mjög spennandi. Við hlökkum til að takast á við komandi áskoranir en við teljum okkur vera að taka við mjög góðu fyrirtæki sem Anna Hlín og Magnús Barðdal byggðu upp,“ segir Rósanna. „Aðal verkefnið verður að auglýsa fallega fjörðinn okkar og bjóða uppá notalega dvöl á sveitasetrinu Hlín.“

Þau Rósanna og Viðar segja væntingar varðandi framtíðina snúist um að fólk geti komið til þeirra í rólegt og notalegt umhverfi og geti notið þess að upplifa fallegu sveitina og slappað af í leiðinni. Hvort sem það er ferðamaðurinn á leið sinni um landið eða vina- eða vinnuhópurinn. Hlín Guesthouse er sérlega vel í sveit sett og boðið upp á 16 herbergi með 36 uppábúnum rúmum, fullbúnu eldhúsi og notalegri setustofu.

Nk. laugardag, 14. janúar, verður opið hús á Hlín Guesthouse og er fólk boðið velkomið að skoða og njóta dagsins með nýjum eigendum eftir klukkan 15. „Hlökkum til að sjá ykkur á laugardaginn þegar við höfum opið hús og vonumst til þess að heimafólk panti sér gistingu þegar það þarf á fríi að halda frá hinu daglega amstri.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir