Rabb-a-babb 208: Halla Mjöll
Nafn: Halla Mjöll Stefánsdóttir.
Árgangur: 1991.
Fjölskylduhagir: Alsæl í sambúð með Sigurjóni mínum Hilmari.
Búseta: Reykjavík.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er dóttir Stefáns frá Gauksstöðum og Ólafar frá Sauðárkróki og Hofsósi. Ég er uppalin á Sauðárkróki.
Starf / nám: Ég er menntaður fjölmiðlafræðingur og starfa sem sérfræðingur á ráðgjafasviði hjá Eignaumsjón hf, fyrirtæki sem sérhæfir sig í rekstri húsfélaga.
Hvað er í deiglunni: Fram undan eru nokkrar strembnar vikur í vinnunni auk þess að skipuleggja sumarið sem lítur út fyrir að vera stútfullt af ferðalögum bæði innanlands og (loksins) utanlands.
Rabbið:
Hvernig nemandi varstu? Almennt held ég að ég hafi verið ágætis nemandi. Eflaust temmilega óþolandi og spjallin ef áfanginn var ekkert sérlega spennandi, en vissulega oftast samviskusöm og dugleg.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Hvíti leðurjakkinn sem ég fermdist í og forljóta pilsið sem Edda systir var í.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Atvinnumaður í fótbolta var efst í huganum. Svo átti ég mér alltaf leynilegan draum um að verða leikkona eða söngkona. Edda systir fékk sennilega alla sönghæfileikana í vöggugjöf, en hver veit nema að ég vippi mér upp á leiksvið einn daginn.
Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Allan daginn fótbolti, sem iðulega var aldrei langt undan.
Besti ilmurinn? Án efa lyktin að nýþvegnum þvotti, helst af snúrunni heima í Lerkihlíð um mitt sumar.
Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Leiðir okkar lágu saman á einstaklega klístruðu og skítugu gólfinu á Pósthúsbarnum (sem var og hét) á Akureyri í lok ársins 2019. Rómantíkin allsráðandi.
Hvernig slakarðu á? Ég fer gjarnan í langt og frekar heitt bað á meðan ég horfi á einn þátt.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Sá var nú tíminn þegar ég fór alltaf heim og horfði á Bold and the Beautiful eftir vinnu. Ég hef blessunarlega ekki tíma í dag til að fylgjast með Bold.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Ég fór á fyrirlestur um daginn hjá Vilborgu Örnu, pólfara, sem skildi helling eftir sig. Mér finnst hún ótrúlega flott og skýr stelpa með afskaplega þroskað og yfirvegað lífsviðhorf. Þá hefur hún gengið í gegnum náttúruhamfarir og fleira sem hefur reynt mikið á feril hennar sem fjallagarpur.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Að brjóta saman þvott. Minn kæri sambýlismaður er alveg vonlaus þegar kemur af því að ganga frá þvotti og enda ég gjarnan á að brjóta allt saman uppá nýtt þegar hann kemst í þvottinn. Þetta snýst allt um að fötin passi í skápinn, sjáðu til! En hann fær samt 10 stig fyrir viðleitni blessaður.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég vil meina að ég geri ómótstæðilegt rjómapasta.
Hættulegasta helgarnammið? Hvað er helgarnammi? Í mínu tilfelli er nammi ekki bundið við helgar. Ég borða alltof oft nammi og er nammi-barinn í Hagkaup langt um fram minn uppáhalds bar, á virkum dögum sem og um helgar.
Hvernig er eggið best? Rauðan sprengd og vel eldað báðum megin.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ætli ég verði ekki að segja tilhneiging mín að vera svolítið óþolinmóð og jafnvel stundum með of stuttan þráð.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Mér þykir fátt jafn óheillandi og hroki í fari annarra, eða þegar fólk tekur sig of alvarlega eða hefur ekki nægan húmor fyrir sjáfu sér.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Sennilega þegar ég var í frekjukasti í leikskólanum og eyddi mörgum dögum að skipuleggja flótta. Mig vantaði hins vegar kjarkinn í að reyna að flýja. Þegar ég komst í grunnskóla áttaði ég mig á hvað ég hafði haft það gott á Furukoti.
Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég væri alveg til í að vera Victoria Beckham, en bara til að geta dáðst að David og horft á hann allan daginn og dekrað við kallinn.
Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur (og af hverju)? Ég á ekki einn uppáhalds rithöfund en verð að nýta tækifærið og mæla með síðustu bók sem ég las. Hún heitir Svínshöfuð og er eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur.
Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Kíkjum á þetta á morgun.“
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ég myndi bjóða Jonathan Van Ness, Tan France, og Bobby Berk úr Queer Eye þáttunum á Netflix. Mér finnst þeir svo dásamlega fullir af lífsgleði og ánægju og fáránlega fyndnir og skemmtilegir.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Halla – hetja húsfélagsins.
Framlenging:
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu. Ég færi beinustu leið til Hawai og myndi nýta nokkrar vikur í að ferðast á milli eyjanna þar og drekka kokteil úr kókoshnetu og synda í hlýjum sjónum.
Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:
- Komast til Hawai og setja persónulegt met í kokteildrykkju þar.
- Hlaupa maraþon erlendis.
- Fara í nokkra vikna siglingu á skemmtiferðaskipi á Miðjarðarhafinu þegar ég er orðin 65 +.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.