Píratar vilja lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi lýsi formlega yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og feli ríkisstjórninni að haga áætlanagerð sinni og aðgerðum í samræmi við það.
Segir Andrés að loftslagsváin sé stærsta áskorun mannkyns sem krefjist gríðarlegra kerfisbreytinga, hann telur að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé á kolrangri leið. Bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar sýni að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hafi aukist um 3% milli áranna 2020 og 2021, og Loftslagsráð telur markmið og útfærslur ríkisstjórnarinnar óljósar og ófullnægjandi.
„Það er ljóst að verkefnið er ríkisstjórninni ofvaxið og þess vegna þarf Alþingi að taka málið í eigin hendur með þessum hætti. Ef Alþingi viðurkennir sannleikann sem ríkisstjórnin vill ekki horfast í augu við getum við tekið skref fram á við,“ sagði Andrés Ingi í ræðu sinni.
Talaði beint til Bjarkar
Í ræðu sinni talaði Andrés meðal annars beint til söngkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur, sem lýst hefur miklum vonbrigðum í garð Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, eftir að ráðherrann sveik Björk og Gretu Thunberg um að lýsa yfir neyðarástandi, eins og Andrés orðar það. „Björk – ef þú ert að hlusta – þá áttu enn bandamenn í baráttunni fyrir raunverulegum loftslagsaðgerðum á Alþingi,“ sagði Andrés Ingi og hélt áfram. „Sú tillaga sem hér er til umræðu snýst um að hlusta á alla sérfræðingana, aðgerðasinnana, Gretu Thunberg og hana Björk okkar allra – að hlusta á vísindin og gangverk náttúrunnar – og lýsa yfir neyðarástandinu sem svo augljóslega ríkir.“
En hvaða þýðingu hefur það að Alþingi lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum?
„Í grunninn er þetta yfirlýsing um forgangsröðun: að allar ákvarðanir stjórnvalda skuli taka mið af áhrifum þeirra á loftslagsmál, sem er fjarri því að vera raunin hjá ríkisstjórninni í dag. Síðan snýst þetta um samstillingu, eins og við þekkjum t.d. ágætlega þegar stilla þarf saman strengi vegna almannavarnarástands, til að allt kerfið sé á leiðinni í sömu átt. Og síðan væri mjög mikilvægt að sjá allt þingið snúa saman bökum um að sýna metnað í loftslagsmálum. Þverpólitísk samstaða skiptir máli gagnvart risavöxnu viðfangsefni sem teygir sig langt út yfir þau mörk sem eitt kjörtímabil setja,“ svaraði Andrés fyrirspurn Feykis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.