Óveður og stórbrim - Þekking milli kynslóða „Hvað ungur nemur gamall temur“
Þau eru léttstíg sporin til baka um áratugi liðinnar aldar langt inn í liðna tíð þó ekki nema steinsnar í tíma. Árið er 1950. Aðfararnótt sunnudagsins 10. desember gekk norðan fárviðri yfir Norðurland með miklum áhlaðanda og stórbrimi. Hér á Króknum urðu miklir skaðar m.a. gróf undan nokkrum beitarskúrum, sem stóðu norðan við fyrrum híbýli og verkstæði Konráðs Þorsteinssonar og seinna íveruhús Pálma Jóns og Eddu.
Sjórinn gekk á land að beituskúrum sem m.a. Agnar Sveinsson og Dóri Sigga P. höfðu aðgang að. Þessir skúrar voru á Kambinum austan við gamla Blöndalshúsið, rétt norðan við „nýja“ pakkhús Kaupfélagsins þar sem Haraldur Sig, Jón Magnússon sveitamaður og Árni í Skriðu réðu ríkjum. Þetta hús er nú stækkað til beggja enda og nær nærri yfir lóðir skúranna Agnars og Dóra. Húsið er nú vistarverur fyrir farandverkafólk. Gamla bryggjan frá 1916 skemmdist talsvert. Brimið spennti upp eitthvað af bryggjugólfinu.
Brimið var skelfilegt
Sauðáin rann eftir endilöngum Króknum á þessum árum. Gamli Djúpósinn lokaðist alveg en hann var rétt norðan við gæruhúsið sem seinna varð smurstöð KS. Sauðáin flæddi um allt og sjórinn og áin náði alveg að suðausturhorninu á Rússlandi og þar sem að Póstur og sími var seinna byggður var mikill vatnsflaumur neðan við brúna á Skagfirðingabrautinni austan við gamla Læknisskúrinn, þar sem Landsbankinn er nú.
Barnsfæðingu bar upp á daginn
Ingólfur Nikódemusson, smiður, varð að ösla allan þennan flaum frá heimili sínu með Unni konu sína upp á gamla spítalann en þennan dag fæddi Unnur Ingólf Geir, son sinn, sem eftir langa útivist syðra er nú heimamaður á Fornósnum hér á Króknum, liðlega sjötugur að aldri.
Freyjugatan ekki óhult
Sjórinn gubbaðist á land sunnan við gamla sláturhúsið, seinna bílaverkstæði KS allt upp á Freyjugötuna að gömlu Bárunni Freyjugötu 30. Fyllurnar voru skelfilegar í augum 7 ára drengs og sjálfsagt verið þá um háflóðið. Sjórinn gekk líka langleiðina að bílaverkstæði KS þar sem Ingi Sveins og fleiri góðir menn réði ríkjum, verkstæðishús sem seinna fékk nafnið Síbería, en er nú löngu horfið. Faðir minn og fleiri voru í miklu basli með brunn sem var í miðri götu beint austur af inngangi Freyjugötu 32 þar sem gengið var inn hjá Steina putt og Stefaníu systir hans. Eiríkur Jónsson, seinna í Beinakeldu í Húnaþingi, var bróðir þeirra.
Öll útföll skólpsins stífluðust í þessu voðalega hafróti en frárennsli hitaveitu kom ekki til fyrr en þremur árum seinna. Það er nokkuð víst að Gísli Gunnarsson og Gunni Egils voru með jarðýtu við að opna Djúpósinn að nýju. Allt gengur nú yfir og vatnsaginn minkaði og veðrið gekk niður og allt fór í fyrra horf. Úti á Eyri var sláturhúsið óbyggt en mikið malarefni hlóðst að hafnargarðinum eins og alla tíð í gegnum árin frá byggingu garðsins 1937 til 1939. Framburður Gönguskarðsárinnar er alveg ótrúlegur og ekki safnast hann fyrir í Skarðskróknum heldur fylgir sjávarföllum til suðurs. Gömlu Malirnar niður með eru afurð Gönguskarðsárinnar.
Stórbrim og sjávarflóð
Í þessu sama veðri 10. desember 1950 flæddi inn í 30 hús á Siglufirði og talsvert tjón varð. Árið 1934 fyrsta vetrardag (laugardag) 27. október gekk mikið sjávarflóð og brim meðfram öllu Norðurlandi. Mikið eignartjón varð á Siglufirði. Mittisdjúpur sjór í Lækjargötunni. Skaðar urðu á Tjörnesi samkvæmt heimildum. Svo segir í VII. bindi Byggðasögu Skagafjarðar bls. 412 „Haustið 1934 varð stórtjón á Bæjarklettum“ á Höfðaströnd. „Að morgni laugardags 27. október var komin stórhríð og ofsaveður“. Á blaðsíðu 391 segir: „Í stórbriminu 26. – 27. október 1934 gekk svo mikill sjór yfir Höfðamölina að vatnið fylltist og braut sér framrás gegnum Bæjarmölina á tveimur stöðum. Í nokkur ár eftir það var flóð og fjara í vatninu. Veiddist þá í því þorskur, síld, loðna, koli og hrognkelsi.“
Yfirborðshækkun sjávar?
Allt fram komið leiðir hugann að því hvað verður ef yfirborðshækkun sjávar fer fram sem horfir um a.m.k. 90 sentímetra jafnvel meira, sem bandaríska stofnunin NASA gerir ráð fyrir, hugsanlega innan 50 ára eða fyrir aldarlok. Hvernig verður norðan áhlaupaveðrum mætt með miklum áhlaðanda sjávar. Margt verður í hættu Eyrin, hesthúsahverfið, verður Borgarsandurinn einn hafsjór? Hvað verður um Alexandersflugvöllinn? Tjarnartjörnin Áshildarholtsvatn og Miklavatnið eru aðeins tvo metra yfir sjó. Mér sýnist að tjaldað sé til einnar nætur í skipulagsmálum miðað við þá þekkingu sem nú er til staðar á tímum hnattrænnar hlýnunar. Að koma þekkingu og reynslu og sögu milli kynslóða er útlátalaust. Skagfirskir sveitarstjórnarmenn verða að vera meðvitaðir um hvað bíður þeirra í skipulagsmálum nýrra tíma. Verja verður heimahagana eftir föngum.
Skipulag á landsvísu
Það er komin sú stund að hugsa „af alvöru“ í tugum ára um skipulag. Tónlistarhús byggð undir sjávarmáli í Reykjavík og á Akureyri bera vott um skammsýni. Hvers vegna eru tónlistarhús Norðurlanda byggð í grunninn undir sjávarmáli? Var þetta kannski tónlistarhúss „veirusýking“ frá Sydney í Ástralíu? Voru ekki til landsvæði í hæfilegri hæð yfir sjó svo byggingarnar gætu staðið óhaggaðar um aldir? Verður Landsbankinn flóðavörn í Kvosinni í Reykjavík? Verður „raunverulegur“ stórþvottur peninga í bankanum?
Básendaflóðið 9. janúar 1799 er víti til varnaðar en Seltjarnarnesið var umflotið sjó sem var um fimm álnum hærra en á venjulegu stórstraumsflóði (þ.e. 5x63 sm eða um 3,15 m hækkun) sjávarhæðin gæti því orðið um 6-7 metrar með áhlaðanda við Reykjavík (var 4,60 m fyrir stuttu) við svipaðar aðstæður og voru þegar Básendaflóðið skall á. Það er þakkarvert að nýr Landspítali skuli vera vel yfir sjávarmáli, þó staðsetning sé arfavitlaus með tilliti til samgangna og byggðaþróunar. Kannski verða þingmenn blautir í fæturna í nýbyggingu Alþingis í Kvosinni. Skammsýnin er víða í skipulagsmálum.
Hörður Ingimarsson
Áður birst í 5. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.