Óstarfhæft slökkvilið á Hofsósi og ónýtur slökkvibíll í Varmahlíð
Í skýrslu sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) gaf út sl. mánudag um stöðu slökkviliða á Íslandi má ráða að hún sé frekar bágborin hjá flestum stöðvum á Norðurlandi vestra. Í landshlutanum eru rekin fjögur slökkvilið; Brunavarnir Skagafjarðar, Slökkvilið Skagastrandar, Brunavarnir Austur-Húnvetninga og Brunavarnir Húnaþings vestra.
Byggðarráð Skagafjarðar segir í fundargerð hafa áhyggjur af stöðu mála í sveitarfélaginu en Svavar Atli Birgisson slökkviliðsstjóri kom til fundar til að ræða framtíð og skipulag útkallseininga í Skagafirði.
„Mjög erfiðlega hefur gengið að manna útstöð slökkviliðsins á Hofsósi undanfarin ár svo ásættanlegt sé m.t.t. viðbragðs og þjónustu sem slík mönnun krefst. Búið er að auglýsa ítrekað eftir mannskap án árangurs. Er svo komið að útkallseiningin er nær óstarfhæf og gefur falskt öryggi fyrir íbúa á þjónustusvæðinu. Slökkvibifreiðin þar er í góðu lagi. Slökkvibifreiðin í Varmahlíð er ónýt og má því segja að báðar útkallseiningar séu óstarfhæfar í dag. Einn valkosturinn í stöðunni í dag er að færa bifreiðina á Hofsósi til Varmahlíðar og/eða að kaupa bifreið, en þá þarf að vera trygg mönnun á útkallseiningum,“ segir í fundargerð byggðarráðs.
Eins og áður segir hefur byggðarráð áhyggjur af stöðu mála og fól sveitarstjóra og slökkviliðsstjóra að vinna að tillögu í málinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.