Öll börn fá bókasafnsskírteini óháð aldri
Lára Halla Sigurðardóttir á Sauðárkróki sendi Feyki grein á dögunum þar sem hún sagði frá viðskiptum sínum við bókasafnið á staðnum. Eldra barnið hennar, fjögurra ára, var spennt að fá að velja sér bók en þegar kom að því að fá bókasafnsskírteini til að geta fengið hana lánaða kom babb í bátinn þar sem barninu var neitað um slíkt. Nú hefur orðið breyting á þar sem öll börn munu í framtíðinni geta fengið skírteini í bókasafninu, óháð aldri.
Í grein Láru kemur fram að í gjaldskrá sveitarfélagsins Skagafjarðar segi að 18 ára og yngri greiði ekki fyrir bókasafnsskírteini en það hafi tíðkast að börn fái ekki skírteini fyrr en þau hafa náð sjö ára aldri. Var henni sagt að það hefði gefist vel að foreldrar barna sem eru yngri en sjö ára greiði árgjaldið og fái barnabækur lánaðar með sínu skírteini. Í kjölfarið sendi hún sveitarfélaginu tölvupóst með hvatningu um að þessu yrði komið í réttan farveg og það hafði sannarlega áhrif því nú hefur verið ákveðið að öll börn fái skírteini í bókasafninu, óháð aldri.
Þórdís Friðbjörnsdóttir, forstöðumaður safnsins, segir í svari til Láru að í sumar hafi verið skipt um allsherjar bókasafnskerfi og eitt af því sem ekki hefur gengið upp er að prenta út lánþegaskírteini fyrir nýja lánþega og samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu landskerfis er ekki búið að finna lausn á því, „okkur til mikillar armæðu,“ eins og Þórdís orðar það og bætir við: „Þið eruð velkomin á safnið en því miður er ekki enn hægt að afhenda skírteini,“ skrifar Þórdís. Mun það væntanlega standa til bóta þegar fram í sækir.
„Í ljósi ábendingar er varðar bókasafnsskírteini fyrir börn yngri en 18 ára á Héraðsbókasafni Skagfirðinga voru verkferlar skoðaðir og var niðurstaða sú að misræmi var milli verðskrár og verklags safnsins fyrir umrædd skírteini. Ákveðið hefur verið að öll börn, óháð, aldri fái lánþegaskírteini í Héraðsbókasafni Skagfirðinga. Skírteinin gilda einnig í söfnunum á Hofsósi og í Varmahlíðarskóla. Skírteinin eru gjaldfrjáls að 18 ára aldri. Ef viðkomandi er 14 ára eða yngri þarf forráðamaður að fylla út eyðublað þar sem hann tekur ábyrgð á öllu því safnefni sem tekið er út á skírteini viðkomandi,“ segir á heimasíðu Skagafjarðar.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.