Of ung til að fá bókasafnsskírteini
Ég flutti á Sauðárkrók í sumar og lagði fljótlega leið mín á bókasafn bæjarins. Með í för voru börnin tvö, eins og fjögurra ára. Eldra barnið var spennt að fá að velja sér bók en þegar kom að því að fá bókasafnsskírteini til að geta fengið hana lánaða kom babb í bátinn.
Þrátt fyrir að í gjaldskrá sveitarfélagsins Skagafjarðar segi að 18 ára og yngri greiði ekki fyrir bókasafnsskírteini var barninu neitað um slíkt. Það tíðkast nefnilega að börn fái ekki skírteini fyrr en þau hafa náð sjö ára aldri. Var mér sagt að það hefði gefist vel að foreldrar barna sem eru yngri en sjö ára greiði árgjaldið og fái barnabækur lánaðar með sínu skírteini.
Þetta var fyrir einum og hálfum mánuði. Í kjölfarið sendi ég sveitarfélaginu tölvupóst með hvatningu um að þessu yrði komið í réttan farveg. Þrátt fyrir nokkrar ítrekanir hef ég engin svör fengið.
Eldra barnið var ekki orðið ársgamalt þegar það fékk bókasafnsskírteini í Reykjavík. Þegar það hafði þroska til þótti því mjög spennandi að afhenda starfsmanni bókina sem það ætlaði að fá lánaða, sem og bókasafnsskírteinið. Þetta var hluti af upplifuninni, að fá sjálft lánaða bók á safninu sem síðan var farið með heim og hún lesin spjaldanna á milli.
Áhugahvöt er það sem drífur okkur áfram í lífinu. Ytri áhugahvöt er umbun, þegar við lesum bækur af því að við þurfum að ljúka verkefni í skólanum sem við fáum síðan einkunn fyrir. Innri áhugahvöt er aftur á móti hvatinn sem fær okkur til að gera eitthvað okkar vegna, af því að við höfum ánægju af því. Að lesa bók af því að við njótum þess.
Það þarft heilt samfélag til að skila börnum út lífið sem hafa góð tök á lestri, góða lestrarfærni, lesskilning og ríka innri áhugahvöt. Bækur þurfa að vera aðgengilegar strax frá byrjun.
Eins og málið horfir við mér er þetta einfalt: Förum eftir gjaldskránni og tökum börnunum fagnandi þegar þau vilja fá lánaðar bækur.
Lára Halla Sigurðardóttir
Höfundur er tveggja barna móðir, íslenskufræðingur og íbúi á Sauðárkróki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.