Nytjamarkaðurinn á Hvammstanga kemur samfélaginu vel
Nytjamarkaðurinn á Hvammstanga er mörgum að góðu kunnur, segir í færslu á heimasíðu Húnaþings vestra en tilefnið er höfðinglegur stuðningur Gæranna til samfélagsins á síðasta ári.
Gærurnar eru vaskur hópur kvenna, segir í færslunni, „sem hafa lagt áherslu á að gefa aftur út í samfélagið til hinna ýmsu framfaramála þann ágóða sem er af rekstri markaðarins. Slagorð þeirra er „Eins rusl er annars gull“. Eru það orð að sönnu því á síðasta ári gáfu þær, líkt og fyrri ár, gjafir til stofnana sveitarfélagsins af miklum rausnarskap.“
Gærurnar við nýju stafrænu klukkuna.
Mynd af hunathing.is.
Stærsta gjöfin á árinu var stafræn klukka til íþróttamiðstöðvar sem jafnframt sýnir hitastig laugar og potta en áður höfðu þær gefið íþróttamiðstöðinni hjartastuðtæki og vindur fyrir sundföt. Þá gáfu þær Grunnskólanum tvær gjafir, til frístundar til kaupa á leikföngum og til kaupa á fimm tölvum í náttúrufræðistofu. Leikskólinn naut líka gjafmildi hópsins til leikfangakaupa.
Mikil vinna og skemmtileg
Að sögn Árborgar Ragnarsdóttur gjaldkera gekk Nytjamarkaðurinn vel í sumar, því 15. sem Gærurnar hafa staðið vaktina. „Þetta byrjaði þannig að við vorum með nytjamarkaðinn þrjár helgar fyrir 15 árum og hefur þetta bara aukist og aukist. Þetta gengur alveg ótrúlega vel en við fáum allt þetta dót gefins, í staðinn fyrir að fólk hendi því. Og svo gengur þetta ekki nema að fólk komi og kaupi,“ útskýrir Árborg.
Nytjamarkaðurinn Hvammstanga.
Mynd af FB-síðu Nytjamarkaðsins
Hún segir mikla vinnu liggja að baki Nytjamarkaðnum enda opið flesta, ef ekki alla, laugardaga á sumrin, og stundum þess fyrir utan, og allt unnið í sjálfboðavinnu. Gærurnar eru alls tíu og markaðinn reka þær núna í húsnæði Meleyrar á Hvammstanga. Gærunafnið segir Árborg hafa komið upp í gríni í fyrstu en það kom til vegna þess að fyrsti íverustaður markaðarins var gamli gærukjallarinn við KVH.
Í fréttabréfi Gæranna, sem kom út síðasta vor og hægt að nálgast á Facebook-síðu Nytjamarkaðarins, kemur fram að helstu gjafir ársins á undan hafi verið speglar og stangir fyrir danskennslu til „Dans Hún Vest“, ungbarnavigt til heilsugæslunnar, sófaborð, gardínur o.fl. til Dreifnámsins; styrkur til foreldrafélags leikskólans Ásgarðs og styrkur til að kaupa á þroskaleikföngum til sama skóla.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.