Sönn vinátta hunds og andarunga :: Ný bók sem byggir á ótrúlegri sögu frá Hvammstanga

Ný bók Auðar Þórhallsdóttur byggir á sannri sögu um andarunga sem fannst fyrir utan húsið hennar á Hvammstanga. Aðsendar myndir.
Ný bók Auðar Þórhallsdóttur byggir á sannri sögu um andarunga sem fannst fyrir utan húsið hennar á Hvammstanga. Aðsendar myndir.

Með vindinum liggur leiðin heim er ný bók sem kom út núna fyrir jólin og tengist á vissan hátt lífinu á Norðurlandi vestra en um er að ræða barnabók um vináttu hunds og andarunga og byggir á sannri sögu frá Hvammstanga. Þar tók fjölskylda að sér móðurlausan andarunga og kom honum á legg.

Það er Bókaútgáfan Skriða sem gefur bókina út en hún er nú til húsa á Patreksfirði en var áður á Hvammstanga. „Þetta er dásamlega falleg hversdagssaga sem snertir hjörtu þeirra sem hana lesa,“ útskýrir höfundurinn Auður Þórhallsdóttir. Hún hefur áður gefið út barnabækurnar um miðbæjarrottuna Rannveigu: Þetta kemur allt með kalda vatninu (2022) og Borgarsaga (2021); Sumar með Salla (2013) og Tönnin hans Luca/El diente de Luca (2016) í samstarfi við Pilar Concheiro.

Höfundurinn með aðalpersónu bókarinnar.

Auður starfar sem myndlistarmaður og rithöfundur og býr með annan fótinn á Hvammstanga en hinn í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún er fædd og uppalin. Hún segist stolt rekja ættir sínar norður og segist í raun vera þrír fjórðu Húnvetningur en einn fjórði Skagfirðingur. „Pabbi er frá Hvammstanga og ég var þar öll sumur þegar ég var lítil hjá honum og ömmu og afa. Veturinn 2019-20 var ég svo heppin að fá vinnu sem myndmenntakennari við Grunnskólann á Hvammstanga og við fjölskyldan fluttum þangað tímabundið.

Mig hafði alltaf langað til að prófa að búa þar og þetta var yndislegur tími. Við festum kaup á gömlu húsi sem við höfum síðan verið að gera upp í rólegheitunum. Að dvelja þetta ár á Hvammstanga var mér mjög dýrmætt. Ég fékk tækifæri til þess að kynnast skyldfólki mínu og vinum fyrir norðan enn betur og einhvern vegin festa betur ræturnar sem alltaf lágu fyrir norðan. Nú förum við fjölskyldan mikið norður, helst alltaf þegar við getum og ég fer líka mikið ein til þess að vinna við að skrifa eða teikna.“

Aftur út í náttúruna

Bókin segir frá ævintýri sem gerist í lítilli vík í norðri þegar andarungar skríða úr eggjum. Andamamma brýnir fyrir börnum sínum hversu mikilvægt sé að halda hópinn en einn þeirra gleymir sér yfir undrum veraldar og týnist. Gamall lífsreyndur hundur finnur ungann og með þeim tekst einstök vinátta. Þrátt fyrir að unginn finni öryggi og ást hjá hundinum og fjölskyldu hans þá býr innra með honum þráin eftir frelsi fuglanna.

„Bókin byggir á sannri sögu um andarunga sem við fundum fyrir utan húsið okkar á Hvammstanga. Eftir nokkra leit að andamömmu og tilraunum til að koma honum út í lífið ákváðum við að taka ungann að okkur. Við tók nokkuð strembin vinna við að hugsa um ungann, sem auðvitað skeit út um allt, fara með hann út í læk að synda og gefa honum að borða. Helst vildi litla skinnið svo fá að sofa uppi í rúmi hjá okkur og kúra við hitann frá hálsakotinu, sem er auðvitað skiljanlegt,“ segir Auður og lýsir því hvernig unginn hafi komist upp með ótrúlegustu hluti þó allir fjölskyldumeðlimir hafi kannski ekki verið jafn hrifnir af því að hafa andarunga upp í rúmi hjá sér.

„Einhvern veginn blessaðist þetta allt og unginn var hraustur og braggaðist og þegar líða fór á haustið vorum við með hann í stífri aðlögun svo að hann kæmist aftur út í náttúruna sem varð raunin. Svo þetta fékk líka ævintýralega góðan endi.“

Auður segist hafa verið dugleg að pósta ljósmyndum og myndskeiðum af andarunganum á Instagram og margir virtust hafa gaman af að fylgjast með, því hún fékk alls konar falleg komment viðfærslurnar.

Henni sýndist að þessi litli ungi og þau ævintýri sem honum fylgdu snertu við fólki og fljótlega kom upp sú hugmynd að skrifa um þetta bók. En hvernig bók?
„Mig langaði til þess að þessi bók yrði á einhvern hátt sérstök, eins og sú tilfinning sem þetta ævintýri skildi eftir sig. Ég horfði aftur og aftur á Instagram vídeóin og alltaf fékk ég þessa notalegu tilfinningu. Tilfinningu sem sagði mér hvað lífið væri fallegt og að allt sé eins og það á að vera. Það var það sem mig langaði til að þessi bók skilaði til lesenda. Eftir að hafa velt því heillengi fyrir mér ákvað ég svo að setja söguna fram í samskiptum ungans og gamla heimilishundsins Krumma, en með þeim tekst einstök vinátta. Unginn er forvitinn um lífið og tilveruna og hundurinn sem er gamall og lífsreyndur reynir af bestu getur að svara spurningum hans. Ég viðurkenni að ég stundaði mikið jóga og hugleiðslu á þeim tíma sem bókin er skrifuð og hún ber þess kannski merki. En ég held að hún tali til allra sem hana lesa.

Bjarki, sonur minn, er grafískur hönnuður og hannaði útlit bókarinnar sem fellur fullkomlega að efni sögunnar. Það var líka einstakt tækifæri að fá að vinna þessa bók með honum. Það var mikil ást lögð í þessa bók og ég held að hún skili sér alla leið.“

Er Hvammstangi sögusvið bókarinnar eða er tilveran skálduð?

„Sögusviðið er klárlega þar en þó fært örlítið til, það er að segja rétt út fyrir bæjarmörkin. Í bókinni kemur fram að sagan gerist í lítilli vík, á eyju rétt sunnan við norðurheimskautsbaug. Í raun sé ég hana fyrir mér gerast rétt fyrir utan Hvammstanga í lítilli vík sem kallast Freysvík. Í dag eru pabbi og konan hans að byggja þar hús. Það er kannski hægt að segja að þessi vík sé griðastaður fjölskyldunnar, þar ríkir ákveðin kyrrð þó hafaldan láti í sér heyra og náttúran iði af lífi. Mér fannst hún fullkomin staður sem sögusvið bókarinnar.“

Eins og fram kemur hér að framan hefur Auður gefið út bækur um miðbæjarrottuna Rannveigu og sú þriðja á leiðinni með vorinu. Þær hafa fengið frábærar viðtökur og allar þrjár fengið útgáfustyrk frá miðstöð íslenskra bókmennta. Í bókunum miðlar miðbæjarrottan menningartengdu efni til barna á einfaldan og ævintýralegan hátt og útskýrir Auður að rottan þurfi að leysa ýmis vandamál en í leiðinni kynnast lesendur sögu landsins, byggingarlist, höggmyndalist og fleira.

„Hugmyndin er að kveikja áhuga lesandans fyrir efninu en ekki fylla textann af of miklum fróðleik. Þannig er saga miðbæjarrottunnar einföld en um leið kynnumst við í bakgrunn sögu þess efnis sem tekið er fyrir í hverri bók. Í sumar sem leið bauð Bókmenntaborgin upp á fjölskyldugöngu tengda fyrstu bókinni sem fjallar um styttur bæjarins. Það var svakalega skemmtilegt og vonandi eitthvað sem hægt verður að gera aftur.“

Auður segist elska að skrifa fyrir börn en sögur hennar spretta líka upp og verða til í samskiptum við börn og dýr. „Ég get t.d. upplýst um það að hugmyndin af bókinni um miðbæjarrottuna verður til þegar við fengum rottu í heimsókn til okkar þar sem við búum í Reykjavík. Þetta var merkileg rotta sem ákvað að heiðra okkur með nærveru sinni 1. maí og var því kölluð verkalýðsrottan. Það tók marga daga að reyna að ná henni og við fengum sérstakan hund í heimsókn sem var sérþjálfaður í að veiða rottur. Sonur minn var fjögurra ára þegar þetta gerðist og honum fannst þetta þvílíkt ævintýri! Svo finnst mér líka svo gaman að teikna fyrir börn og með börnum. Sú vinna í bókunum mínum skiptir mig ekki síður máli og oft fæ ég krakkana til að skoða myndirnar, koma með hugmyndir og fá hjá þeim gagnrýni en börn eru nefnilega frábærir gagnrýnendur og segja nákvæmlega það sem þeim finnst.“

Hefurðu skrifað fyrir fullorðna eða stendur það til?

„Ég hef svolítið skrifað, einhverjar smásögur og drög að skáldsögu sem örfáir hafa fengið að glugga í. Það stendur klárlega til að gera eitthvað meira með það og koma með bók fyrir fullorðna, en hvenær veit ég ekki. Allt hefur sinn tíma.“

Fyrir hvaða aldur er bókin? er spurning sem Auður fær oft og henni er auðveldlega svarað á þessa leið: „Hún er fyrir allan aldur, þetta er bók fyrir börn, fullorðna, foreldra og ömmur og afa. Með þessari bók óska ég þess að þú gefir þér stund, rólega stund til að lesa, kannski með barni og saman og veltið þið fyrir ykkur töfrum lífsins, því smáa og stóra. Og hamingjunni, sem býr einmitt í þessari stund.“

Hægt er að nálgast bækur Skriðu á heimasíðu bókaútgáfunnar skridabokautgafa.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir