Nafarbændurnir Stefán og Sigurjóna segja mikla lífsfyllingu fylgja því að stússast við kindurnar

Á góðum degi á Nöfum, Stefán og Sigurjóna Skarphéðinsbörn við gegningar en þau hafa haldið kindur í áratugi. Mynd: PF
Á góðum degi á Nöfum, Stefán og Sigurjóna Skarphéðinsbörn við gegningar en þau hafa haldið kindur í áratugi. Mynd: PF

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti þann 30. nóvember sl. Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 ásamt umhverfismatsskýrslu en vegna þess bárust athugasemdir og umsagnir frá 102 aðilum vegna aðalskipulagsins frá umsagnaraðilum, íbúum og öðrum aðilum, langflestar þeirra í formi samhljóða bréfs frá frístundabændum á Nöfunum, og vörðuðu fyrirhugaða stækkun íþróttasvæðisins á Nöfunum þar sem ekki var gert ráð fyrir frístundabúskap í framtíðarplönum Sveitarfélagsins.

„Í núgildandi Aðalskipulagi er gert ráð fyrir íbúðabyggð á hluta svæðisins og er fullur skilningur fyrir breytingum á lóðasamningum í því tilviki, hinsvegar að taka út svæði sem hefur verið notað undir frístundabúskap og merkja það öðrum frístundum er gjörningur sem hugnast mér/okkur mjög illa,“ segir í athugasemdum sem bárust frá meðlimum Fjáreigendafélagsins á Sauðárkróki. Í samhljóða bréfi fjáreigenda segir m.a.: „Fjáreigandafélag Sauðárkróks er ört stækkandi félag á þó minnkandi landnæði og að ætla að þurrka út sögu, menningu og frístundir sem snerta þó þetta marga bæjarbúa er ekki hægt að gera mótmælalaust. Óska ég/við því eftir endurskoðun og breytingum á Aðalskipulagi Sauðárkróks 2022-2035, og að það sé gerð grein fyrir þeirri stjórnvaldsaðgerð að breyta frístunda/landbúnaðar svæðum ásamt fjárborg í annarskonar afþreyingar svæði, og þar með margfalda það svæði sem nú þegar er skilgreint sem íþróttasvæði.“

Sveitarstjórn féllst á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á þeim umsögnum og athugasemdum sem bárust og var skipulagstillagan uppfærð í samræmi við afgreiðsluna. Í breytingatillögunni er gert ráð fyrir minna landsvæði undir íþróttir en áður svo enn um sinn geta tómstundabændur stundað þetta áhugamál sitt.

Feyki langaði að forvitnast um þessa svokölluðu Nafarbændur og verða nokkrir teknir tali eftir því sem líður á árið. Við byrjum á að heyra hvernig systkinin Stefán og Sigurjóna Skarphéðinsbörn hafa það, en þeirra aðsetur er syðst á Nöfum.

Hobbýið krefst mikillar viðveru

Að áliðnu hausti. Stebbi lítur yfir hópinn sinn.
Mynd: Sigurjóna.

„Við erum hér tvö að staðaldri en allir í fjölskyldunni taka þátt á einhvern hátt,“ segir Sigurjóna. „Við sjáum um þetta en hinir koma með okkur þegar eitthvað er um að vera. Stebbi sér um þetta að mestu um háveturinn en ég er hérna á vorin og mikið á haustin, það tekur því ekki að það séu tveir að fara uppeftir að gefa 30 rollum.“

Sigurjóna hefur verið með kindur í rúm 30 ár með bróður sínum, byrjaði þegar Marteinn Jónsson hætti en hann var með kindur á Hlíðarenda þar sem golfklúbburinn hefur aðstöðu núna. „Ég fékk kindurnar hans Matta á sínum tíma. Þá byrjar þetta hjá mér en Stebbi er búinn að vera lengur,“ segir hún. „Já, þetta er líklega 51 ár sem ég er búinn að vera með kindur hérna uppfrá. Byrjaði með Valda, tengdapabba mínum, og var með honum nokkur ár og tók síðan við þegar hann hætti. Svo kom Sigurjóna og erum við búin að vera í þessu saman síðan.“

Aðspurð um dæmigerðan dag á Nöfunum segja þau störfin hefðbundin yfir veturinn þegar verið er að fóðra en á vorin kemur sex vikna törn í kringum sauðburð sem krefst mikillar viðveru. Til að létta sér vinnuna og viðveruna hafa þau komið sér upp vaktakerfi í símanum sem tengt er myndavélum og sparar heilmikla vinnu í sauðburðinum.

„Við erum búin að vera með það í sex ár og þvílík bylting því þá losnar maður við endalausa keyrslu fram og til baka á nóttunni þegar verið var að tékka á stöðunni. Nú vaknar maður bara og kíkir í vélina og getur haldið áfram að sofa ef allt er í lagi. Maður er sofnaður á punktinum,“ segir hún og hlær.

Stefán tekur undir með byltinguna með notkun vélanna. Þær eru tvær og vísa á valda staði. „Við getum alveg fylgst með þeim og horft á þær bera þess vegna. Sumir eru með aðdrátt og stýringu á sínum vélum svo hægt er að færa myndavélina til, en það eru þeir sem byrjuðu á eftir mér,“ segir hún brosandi og bendir á að slíkar vélar eru komnar í mörg fjárhús.

„Ég heyrði hjá einum sem var á vakt úti í Svíþjóð og hringdi bara í pabba sinn til að biðja hann að fara og kíkja á aðstæður. Þannig að þú getur verið hvar sem er á vaktinni.“

Stebbi nefnir einn Nafarbóndann sem stundar sjómennsku en hann fylgist með þaðan og hringir ef eitthvað er um að vera.

Fólk vill skepnurnar nær sér

Þau Stefán og Sigurjóna segja félagsskapinn góðan í kringum fjárstússið allt á Nöfunum og samstöðuna mikla meðal fólksins. „Ef eitthvað er að eru allir boðnir og búnir til að hjálpast að. Í sauðburðinum er hlaupið hér á milli til að hjálpa þeim sem vantar aðstoð. Það er rosalega gott,“ segir Sigurjóna.

Fósturtalningar fóru fram á dögunum en hér er
Ásta Einarsdóttir, bóndi á Veðramóti,að störfum.
Mynd: Sigurjóna.

Hún segir marga hlynnta þessum búskap á Nöfunum og margir haft á orði við hana hve gaman það sé að ganga um og skoða lífið á Nöfunum. En hvort það haldist um ókomna tíð vill hún engu spá um. „Ég veit ekki hvort við verðum hér eftir önnur 20-30 ár. En ég held að þetta sé að breytast eins og Ólafur Dýrmundsson sagði einhvers staðar. Fólk er víða um álfuna að færa skepnurnar nær sér aftur. Þegar ég kom í bæinn á sínum tíma voru aðeins tveir hundar í bænum, Snoddas og Rex og voru jafnvel litnir hornauga. Ég man eftir því þegar ég sagðist langa á hestbak þá sögðu fínu konurnar við mig: -Það kemur bara fýla af þér ef þú ferð á hestbak,“ segir hún og hlær að minningunni. „Fólk var að brjótast út úr sveitamenningunni og vildi verða fínt í bænum. En nú eru 200 hundar í bænum, heilmikið af köttum og eitthvað af hænum og svo náttúrulega hrossin, sem líklega er að fjölga.“

En hvað skyldi þetta rollustúss gefa þeim Stefáni og Sigurjónu?

„Ég eyði deginum,“ segir Stebbi og hlær sínum dillandi hlátri og Sigurjóna tekur undir: „Þetta gefur lífinu gildi fyrir marga og ofsaleg lífsfylling að vera með dýrum og eru hin bestu geðlyf sem hægt er að fá. Það er alveg sama hvaða skepnur fólk er með en við viljum bara vera með kindur og hesta,“ segir hún en auk kindanna 30 er Stebbi með fjögur fullorðin hross og eitt trippi á sínum snærum.

Að sögn þeirra Stefáns og Sigurjónu hefur kindum fækkað mikið með árunum en þær eru rétt yfir 200 í dag í eigu Nafarbænda en fóru yfir 1000 þegar mest lét.

„Þetta hefur fækkað svakalega enda er þetta frístundabúskapur. Okkur langar að vera til og viljum fá að vera í friði, það er það eina sem við förum fram á. Við vildum gjarnan fá fleiri á Nafirnar en það er ekkert svæði í boði eins og er, ekkert laust en það er eftirspurn eftir því að fá að vera með kindur hér. Það var fjöldi sem sótti um síðast þegar tún var auglýst til leigu,“ segir hún.

En það sem er mikilsverðast er að þau eru ánægð með sitt tómstundastarf og gera ráð fyrir því að stunda það meðan heilsan leyfir. „Við erum saman í þessu,“ segja þau og vilja ekki hafa það neitt öðruvísi.

Áður birst í 9. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir