Mikill ljósagangur á Nöfum á morgun
Í fyrramálið, 25.nóvember, fer fram hin árlega Friðarganga Árskóla á Sauðárkróki þar sem kveikt verður á krossinum á Nöfum. Strax að því loknu munu Kiwanisfélagar kveikja á ljósakrossunum í kirkjugarðinum en það er ekki síður mikið sjónarspil. Þetta mun vera áttunda árið sem Kiwanisklúbburinn Drangey sér um ljósakrossa í kirkjugarðinum fyrir einstaklingar sem vilja lýsa upp leiði ættingja og vina.
Klúbburinn tók við verkefninu af Steini Ástvaldssyni sem hafði áður séð um þessi mál en verkefnið var orðið það yfirgripsmikið að ekki var hægt annað en breyta fyrirkomulaginu. „Ég var að vinna fyrir sóknarnefndina, einn tvo tíma í viku, en það gekk aldrei með mörg hundruð ljós. Undir það síðasta vorum við orðnir tveir en svo var samið við Kiwanisklúbbinn,“ segir Steinn sem einnig er meðlimur klúbbsins.
Hann segir mikið hafa þurft að endurnýja ljósakrossana í gegn um árin en klúbburinn sér um allt viðhald, uppsetningu, geymslu og tengingu við rafmagn en nú eru hátt í 400 krossar sem klúbburinn sér um og enn að bætast við, að sögn Steins, en fyrir þetta greiðast 5000 krónur. „Í stuttu máli sagt getur þú hringt í okkur, pantað ljós, borgað fimmþúsundkallinn og farið svo að sofa. Við sjáum um rest!“
Hvern laugardag fram að jólum verða Kiwanisfélagar að störfum við kirkjugarðinn og fær ljós að loga fram yfir ljósadaginn sem haldinn er í Skagafirði þann 12. janúar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.