Menntabúðir björgunarfólks haldnar í Varmahlíð
Fyrstu menntabúðir björgunarfólks voru haldnar í Varmahlíð laugardaginn 26. febrúar síðastliðinn þar sem um sextíu manns frá 15 félögum tóku þátt en nokkur forföll urðu á síðustu stundu vegna veikinda.
Það voru þær Hafdís Einarsdóttir og Þorbjörg Jóna Guðmundsdóttir sem sáu um og skipulögðu viðburðinn en þær eru félagar í Björgunarsveitinni Skagfirðingasveit og Flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð.
„Þátttakendurnir sáu sjálfir um að fræða hvern annan og voru samtals sextán umræðustofur yfir daginn, fjórar hverju sinni í fjórum lotum. Málstofurnar voru skipulagðar á mismunandi hátt; allt frá því að vera 50 mínútna fyrirlestrar upp í að vera umræður sem voru að litlu leyti fyrirfram àkveðnar,“ segir Hafdís. Hún segir að það hafi verið samdóma álit þátttakenda að vel hafi tekist til og hefur nú verið ákveðið að halda samskonar viðburð að ári.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.