Malen gefur út plötuna Back Home

Malen. SJÁLFA
Malen. SJÁLFA

Nú nýverið gaf Króksarinn Malen Áskelsdóttir út sína fyrstu plötu, Back Home, og er hægt að hlýða á hana á Spotify. Malen er næstelst dætra Völu Báru Valsdóttur og Áskels Heiðars Ásgeirssonar. Lögin eru lauflétt og grípandi, oftar en ekki lágstemmt kántrýskotið popp en hún samdi lög og texta yfir þriggja ára tímabil, frá 2019 og fram í ársbyrjun 2022. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Malen.

Malen, sem verður 24 ára nú í febrúarbyrjun, hefur lengi verið viðloðandi tónlist, byrjaði að læra á fiðlu hjá Kristínu Höllu fimm ára gömul en lagði fiðluna til hliðar tíu ára. Hún spilar bæði á hljómborð og gítar og syngur að sjálfsögðu. Malen fór í söngnám til Köben og síðar í Reykjavík og hefur komið fram á hinum ýmsu tónleikum, stórum sem smáum. Þannig hefur hún tekið þátt í Jólin heima hér í Skagafirði en fyrsta lagið, Please Don't Go, kom út 2020 en síðan hefur hún droppað einu og einu lagi inn á Spottan og nú er semsagt búið að safna í sjö laga plötu, Back Home.

Hvernig semur þú lög og texta? „Það er mjög misjafnt hvernig ég sem lög og mjög misjafnt hversu vel það gengur að semja þau – stundum koma þau hratt en stundum ekki og þá jafnvel læt ég það sem er komið í friði í einhvern tíma og skoða það svo aftur seinna. Þegar ég er fljót að semja lag þá er ég yfirleitt að semja laglínuna og textann á sama tíma. Stundum sem ég laglínuna á undan en þá þarf ég yfirleitt að leggja mig mikið fram við að semja texta sem mér finnst passa.“

Um hvað fjalla textarnir? „Ég held að fólk túlki alltaf texta á mismunandi hátt, hugsi þá út frá sér og sinni reynslu. En í stuttu máli myndi ég segja að lögin á plötunni fjalli um ástina en frá alls konar sjónarhornum.“

Hverjir sjá um undirleik og upptökur á plötunni? „Mitt fyrsta lag tók ég upp hjá Stefáni Erni og Reynir Snær spilaði á gítar. Svo fórum við Reynir að vinna meira saman, ég sendi honum alls konar demo og við tókum fyrst upp lagið All The Time og gáfum út. Söngurinn í því lagi er tekin upp hjá Eyþóri Inga. Ég tók upp þrjú lög í viðbót hjá Reyni og hann, ásamt Bergi Einari og Magnúsi Jóhanni, hjálpuðu mér að útsetja og spila inn á þau. Svo kynntist ég öðrum skemmtilegum pilti sem heitir Baldvin Hlynsson og endaði á því að taka upp tvö lög á plötunni hjá honum. Sólrún Mjöll, Arnar Freyr og Halldór Sveinsson spiluðu einnig inn á plötuna.“

Hvaða tónlist höfðar helst til þín? „Ég hlusta á mjög mismunandi tónlist. Popp, country, rokk, hiphop, rapp, folk – þetta er allt skemmtilegt, fer bara eftir því í hvernig stuði ég er. Þegar kemur að því að semja þá hefur Taylor Swift haft mikil áhrif á mig. Einnig Kacey Musgraves, Lizzy McAlpine, Emilíana Torrini…og ég gæti haldið áfram í allan dag.“

Var fljót að hafna samningi við erlent útgáfufyrirtæki

Hvað þarf ung tónlistarkona að gera til að ná í gegn til fjöldans? Ertu dugleg á öllum helstu samfélagsmiðlum og hvernig hefur gengið að koma lögum í spilun á útvarpsstöðvunum? „Ég er búin að læra margt um tónlistariðnaðinn á síðustu árum, bæði hér á Íslandi og erlendis, og sem ung tónlistarkona gæti mér eiginlega ekki fundist þetta minna heillandi heimur, svona ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ef ég horfi til dæmis á þann langa lista af söngkonum sem ég leit upp til í æsku þá hafa þær örugglega allar opnað sig um einhverss konar ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Útgáfufyrirtækin að hvetja þær til þess að svelta sig svo ég taki dæmi. Í fyrra fékk ég líka ágætis innsýn inn í þennan heim en mér bauðst samningur hjá erlendu útgáfufyrirtæki, sem ég var fljót að hafna,“ segir Malen en vill síður segja þá sögu að sinni. „Ég mæli samt með The Playlist, þáttum á Netflix sem fjalla um hvernig Spotify varð til og sýna hvað tónlistariðnaðurinn er í raun gallaður.“

Malen segist vissulega elska tónlist og að syngja og semja lög. „En mér hefur alltaf fundist eins og ég sé bara að gera þetta fyrir sjálfa mig samt. Einhverskonar þerapía og líka skemmtun og góð leið til að kynnast skemmtilegu, hæfileikaríku fólki sem er með sama áhugamál og ástríðu og ég. Svo er auðvitað auka plús þegar fólk vill hlusta á lögin mín og mér finnst sérstaklega gaman þegar fólk segist tengja við texta sem ég hef samið. En til að svara betur spurningunni þá tek ég mig stundum upp þegar ég er að syngja heima og set á Instagram eða TikTok. Ég hef líka verið að fara í útvarpsviðtöl þegar ég gef út nýtt efni og þau hafa tekið vel á móti mér, bæði Rás2 og Bylgjan.“

Ætlarðu að fylgja plötunni eftir á einhvern hátt? „Ég stefni á að halda country- tónleika í Skagafirði á árinu. Þar mun ég flytja lög eftir mig og ábreiður og verð með hóp af flottu tónlistarfólki með mér. Svo held ég vonandi áfram að gigga eitthvað. Ég hef ekki mikið verið að setja mér langtímamarkmið, frekar að plana bara næsta skref sem ég vil taka, veit ekki hvort það sé skipulagsleysi eða ég að vera góð í núvitund,“ segir Malen og hlær.

Hún segir að það sé mjög gaman, en líka scary, að koma einhverju frá sér sem maður hefur skapað. „Að opna sig og semja lög um tilfinningarnar sínar og leyfa svo öllum að heyra lögin er svolítið eins og að leyfa öllum að lesa dagbókina þína. En ég er búin að vera mjög dugleg að æfa mig í því að hlusta ekki á “egóið” þegar það fer að láta mig efast um sjálfa mig. Það er allt miklu léttara þegar ég leyfi mér að vera ég sjálf og svo finnst mér alltaf koma betur í ljós að þetta skiptir ekki neinu máli – það gerist ekkert ef ég klúðra einhverju uppi á sviði eða gef út lag sem einhver fílar ekki. Svo ég tek undir þessa klisju og hvet alla til þess að reyna að hætta að pæla í hvað öðrum finnst. - Mig langar líka að þakka fyrir æðislegar viðtökur. Mér þykir mjög vænt um öll fallegu orðin sem ég er búin að fá um plötuna,“ segir Malen að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir